18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

1. mál, fjárlög 1924

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg á hjer eina brtt., 11. brtt. á þskj. 369, og miðar hún til hækkunar á útgjöldum ríkissjóðs. Jeg vil ekki viðurkenna það, sem einn háttv. þm. sagði, að hún væri tilboð um hrossakaup. Það skal jeg fræða hann um strax, að þótt hann verði með minni till., þá get jeg ekki orðið með hans, svo að hann veit þá, hvers hann má vænta af mjer. Það liggja þó rök til, því að mín till. er sanngjörn, en svo er ekki um hans till. Um skólann á Ísafirði er það að segja, að auk þess, sem hann er barnaskóli fyrir kaupstaðinn, þá hefir þar líka verið húsnæði fyrir unglingaskóla. Honum yrði að víkja úr barnaskólahúsinu, ef styrkurinn fengist ekki. Húsið var bygt á árunum 1898–1900, að mig minnir, en þá var fólksfjöldinn í kaupstaðnum aðeins ca. 1300 manns; þá var skólinn ætlaður 80 nemendum. Nú eru nemendur um 160. Jeg skal geta þess til upplýsingar fyrir háttv. þm., þar sem jeg þykist vita, að þessi styrkur hafi lítinn byr í þessari hv. deild, þá hefi jeg komið fram með tvær aðrar brtt., aðra, sem lækkar útgjöldin, en hina, sem hækkar tekjurnar, svo að jeg vona, að það geti jafnað upp útgjaldaaukann af þessari styrkveitingu.

Hv. frsm. fjvn. (MP) sagði, að unglingaskólahúsið í Þingeyjarsýslu mundi kosta, samkvæmt ábyggilegri áætlun, um 95000 kr. Jeg býst við, að meðan vantar teikningar af húsinu, hvað þá heldur annað, þá gæti deildin látið sjer nægja að hafa styrkinn til byggingarinnar 28 þús. kr. Hin till. mín fer í þá átt, að húsameistari ríkisins, eða þeir, sem verk hans vinna, greiði ríkinu helming af tekjum þeim, sem hann eða þeir fá fyrir uppdrætti o. fl. hjá einstökum mönnum. Húsameistarinn er í raun og veru fastur embættismaður ríkisins og ætti strangt tekið ekki að vinna annað starf en það, sem stjórnin felur honum. En þegar þessi maður vinnur fyrir hina og aðra og tekur stórfje fyrir, þá er ekki nema rjett og sanngjarnt, að nokkuð af því, sem hann þannig fær fyrir vinnu, renni í ríkissjóð. Annars ætla jeg ekki að koma með dæmi mínu máli til sönnunar. Ef engar vjefengingar koma fram á því, sem jeg hefi sagt, býst jeg ekki við að taka aftur til máls.