18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (755)

1. mál, fjárlög 1924

Eiríkur Einarsson:

Þó að því sje svo varið, að jeg til samkomulags við fjvn. hafi unnið það til, að Skeiðaáveitufjelagið fengi aðeins lán, í stað styrks, er því ekki að leyna, að það var alt annað og meira, sem fjelagsmenn báðu um. Það var það, að ríkið tæki þátt í þeim ofurefliskostnaði, sem á fjelagið er fallinn, og hjálpaði því til að standa straum af hinum miklu skuldum. En þetta er áður búið að taka fram, svo að jeg fer ekki að endurtaka það. En fyrst háttv. samþm. minn (ÞorlG) fer fram á, að þetta verði ekki veitt sem lán, heldur sem styrkur, get jeg, þrátt fyrir þetta samkomulag í nefndinni, ekki annað en stutt þá tillögu hans, þar sem þetta er rjett mál og sanngjarnt og mjög nauðsynlegt fjelaginu, ef ekki á að eyðileggja áveitusvæðisbúa með kvöðum, er þeir fá ekki rönd við reist. Síðan fjárlögin komu til umræðu og það hafði borist austur, að áveitufjelaginu væri ætluð lánshjálp, en ekki styrkur, hefir mjer borist brjef frá stjórn áveitufjelagsins, þar sem það er auðvitað viðurkent sem mjög vinsamlegt af þinginu að veita þetta lán, en auk þess bent á, að það sje ekki nægileg liðveisla við fjelagið, þar sem þessar 400 þúsundir, sem á fjelaginu hvíla, halda þá áfram að hækka og gera fjelagsmönnum æ erfiðara að rísa undir. Vona jeg því, að háttv. þm. sjái, að þetta er alveg rjett og styrkbeiðnin rjettmæt.

Jafnframt því, sem jeg vil eindregið mæla með því, að þessar 16 þús. kr., ársskilakostnaðurinn, verði veittar sem styrkur, en ekki lán, er ástæða til að geta þess, því máli til styrktar, að altaf er betur og betur að koma í ljós, og það af umræðum þeirra, er best til þekkja hjer í hv. deild, að það eru ekki bændurnir á áveitusvæðinu, heldur stjórnarvöldin og þeirra þjónar, er undirbjuggu verkið með hroðvirkni, sem aðalsökin hvílir á, hvernig komið er. Það er mikilsverð ástæða.

Jeg á brtt. á þskj. 369,XX, um styrk handa Haraldi Guðmundssyni frá Háeyri, til dýralækninganáms. Við Árnesingar eigum að vitja dýralæknis til Reykjavíkur, og er það afarerfitt og oftast gagnslaust að eiga slíkt athvarf, og því hefir þessi maður lagt stund á dýralækningar þar austur í sveitunum. Er hann náttúrugreindur í þessum efnum og hefir honum gefist vel og orðið mörgum til hjálpar. Hann er fátækur barnamaður og býr á Eyrarbakka. Svarar þetta starf lítt kostnaði fyrir hann sjálfan, en miklu betra fyrir þá, sem njóta. Vill hann nú fara og leita sjer frekara náms, annaðhvort suður til Reykjavíkur eða öllu heldur til Stykkishólms, til dýralæknisins þar. En til þess að geta gert það, þarf hann að yfirgefa heimili sitt og fjölskyldu, og er því styrkþörfin tvöföld. Nú hefir komið fram tillaga um að veita sjálfmentuðum dýralækni norður í Þingeyjarsýslu eftirlaun. Jeg víti það alls ekki; en ef það verður gert, þá er enn brýnni þörfin á að veita þetta, er horfir til framtíðarnota fyrir bændur og líknar skepnunum.

Í 16. grein fjárlagafrv. sje jeg, að 12 hundr. kr. eru ætlaðar til dýralækninganáms erlendis; og þó jeg hefði nú viljað koma með brtt. til þess að snúa þessu Haraldi í hag, er það ekki hægt, er jeg hefi fengið þær upplýsingar hjá hæstv. atvrh., að nú þegar nýtur maður, sem dvelur erlendis til náms, þessa styrks. Vona jeg því, að háttv. þm. veiti þessu máli góðan stuðning.

Þá er brtt. um styrkinn til Þórdísar ljósmóður nú í nýrri mynd og nokkuð lægri. Það hefir verið bent á, að þetta mundi skapa fordæmi eða væri ekki regla. Það hafa nú stundum verið brotnar reglurnar, þegar sjerstakar ástæður hafa verið fyrir hendi, t. d. þegar ýmsir aðrir með eftirlaunarjetti úr ríkissjóði hafa átt í hlut, en þótt aukinnar hjálpar maklegir. Þessi yfirsetukona á eins og aðrar sinn rjett til eftirlauna, en hún hefir og einnig sinn sjerstaka sanngirnisrjett, eftir að hafa starfað í öll þessi 50 ár eða meira með heiðri og sóma að ljósmóðurstörfum.

Þá vil jeg bæta við það, sem háttv. þm. Dala. (BJ) sagði um námsstyrk til ýmsra manna, að jeg saknaði þar nafns manns, sem hann ásamt öðrum í fjvn. var búinn að mæla með. Jeg átti íhlutun um styrkbeiðni fyrir hann, en það var felt, vegna þeirrar lánsheimildar, sem var á döfinni og talið var sjálfsagt að tæki til þessa námsmanns, Brynjólfs Bjarnasonar, sem er kostgæfinn og fátækur stúdent. En háttv. þm. Dala. hafði ekki tekið Brynjólf með á nafnalista þann, er hann las upp og mælti með, og því vil jeg nefna hann.

Svo er það og Lúðvík læknir á Eyrarbakka, sem hefir sótt um styrk til utanfarar, til þess að fullnuma sig í skurðlækningum. Er hann væntanlegur læknir í hinn fyrirhugaða spítala á Eyrarbakka, og því eðlileg krafa að hjálpa manninum til að verða þar nothæfur læknir, og ætti hann því að njóta láns, úr því styrkur fæst ekki, og það því fremur, sem hann er talinn mjög efnilegur skurðlæknir.

Þá er næst, að jeg vil leggja liðsinni mitt tillögu háttv. þm. Dala. (BJ) um hækkun á fjárveitingu til Einars Jónssonar. Hann er svo mikils góðs maklegur af öllum, að ekki getur til annars komið en greiða atkvæði með þessari litlu hækkun. enda er það almennur vilji úti um land, að hlynt sje að honum.

Kem jeg svo að brtt. háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ), um fjárveitingu til endurbyggingar Geysishússins. Hann gaf mjer sjerstakt tækifæri til að ræða þetta, með því að telja mína tillögu setta til höfuðs hans till. En það er alls ekki tilgangurinn að reyna að spilla fyrir þessu. Þar sem hann segist taka sína till. aftur, af því jeg sje henni mótfallinn, vil jeg sýna, að svo er ekki, með því að taka þá till. hans upp að nýju. En til skýringar vil jeg geta þess, að hefði hann ekki komið fram með þetta mál, hefði jeg heldur ekki haft kjark til að bera mína till. fram. En eigi að fara að endurbyggja þarna við Geysi, þurfa húsin að vera fleiri. Ferðamannastraumurinn, bæði af innlendum og útlendum ferðamönnum, er mestmegnis um Þingvelli og Geysi, Gullfoss og til Heklu. Þetta er venjulegasta ferðalagið: það veit háttv. 1. þm. Reykv. vel. Auk þess fara margir upp Þjórsárdal, en sumir aðeins að Gullfossi. Hann er óbreyttur og æ hinn sami Gullfossinn, en gamli Geysir er hættur að gjósa, og mun svo fara um hann með tímanum, þó frægur sje, að yfir honum daprast, og er svo um flesta frægð, sem styðst aðeins við það, sem var, en er hætt að vera.

Jeg álít, að þó að máske sje ekki nein höfuðnauðsyn á því að hafa hús við Geysi, þá sje haganlegt að hafa gistihús á þessum stöðvum, og þá fremur við Gullfoss, ef kleift þykir vegna kostnaðar; en þá þarf einnig að byggja gistihús fyrir þessa langferðamenn dagleiðinni austar, og það er einmitt í Gnúpverjahreppi. Það er alveg samskonar nauðsyn. Till. mín er einungis komin fram í samræmisskyni við till. hv. 3. þm. Reykv. (JÞ).

Hvernig var nú með þetta margumrædda Geysishús? Það var, eins og menn vita, bygt 1907. Á öllum síðustu árunum fyrir 1921 var þar enginn, sem gæti tekið fólk til gistingar nje veitt mönnum beina. Allir gestir, sem til Geysis komu, gistu á bæjunum í grendinni. Húsið var að síðustu orðið gisinn hjallur, sem enginn hafði not af. Árið 1921 var húsið svo skinnað upp, og geri jeg ráð fyrir, að það hafi eftir aðgerðina orðið sæmilegt til íbúðar. En að einu leyti hjelst þó ástandið óbreytt. Enginn stóð sig við að vera þar og veita mönnum gistingu styrklaust. Það var engin atvinna.

Þá ætla jeg að víkja að nauðsyninni á gistihúsi í Gnúpverjahreppi, umfram það, sem áður var tekið fram. Jeg er því máli vel kunnur, þar sem jeg er fæddur og uppalinn í þeim hreppi. Háttv. þm. hugsar nú kannske sem svo, að jeg sje þarna að draga taum míns fæðingarhrepps, og muni svo hver hreppurinn koma að öðrum og heimta gistihús, uns þau eru komin í alla hreppa landsins. En með þennan hrepp er því alt öðruvísi varið í þessu tilliti en með flesta eða alla aðra hreppa. Hvergi mun gestanauð vera eins mikil á sumrum. Þarna er fastur gistingastaður eða stöðvar á umræddri ferðamannaleið, og ferðamenn, sem ferðast til Gullfoss og Heklu eða upp í Þjórsárdal, sem er mjög fagur staður og margir sækja til, fara um þennan hrepp. Verður af því hin mesta ánauð fyrir bændur um annatímann. Tel jeg ekki nema sanngjarnt, að ríkið styrki opinber gistihús á slíkum stöðum, því að þótt þau beri sig ekki að öllu leyti, þá eru þægindin, sem af þeim leiðir, svo mikil bæði fyrir vegfarendur og bændur, að það ynnist upp óbeinlínis.

Jeg ætla mjer ekki að fara að bera blak af fráfarandi ráðherra (MagnJ) en mjer þykir undarlegt, ef þetta málefni, sala Geysishússins, hefir orðið til þess, að hann ljet af embætti. Hvernig stendur á því, ef þetta er svo mikilsvert málefni, að á þingmálafundi Árnesinga nú í haust hefir ekkert verið á það minst? Og voru þar þó bændur, sem margir ferðamenn, sem koma til Geysisstöðva, leita gistingar hjá. Get jeg t. d. nefnt Guðmund bónda í Skipholti, sem auglýsti eftir að húsið var rifið, að hann hýsti ekki gesti; en ekki var á honum að heyra neina óánægju við fráfarandi ráðherra (MagnJ) út af húsrifinu. En þó veit jeg, að gestanauðin bitnar mjög á því myndarheimili, í Skipholti. Nei, það var ekki þetta, sem bændur eystra voru óánægðir með. En það var annað, sem þeim líkaði ekki, og það var sá mikli kostnaður, sem leiddi af konungskomunni 1921, og þótti þeim svo, sem þar hefði ekki verið hóflega tekið á fje landsins, þótt þeir kynnu fyllilega að meta það, sem vel var gert og að gagni mátti koma síðar. Ætla jeg mjer svo ekki að ræða þetta meira að sinni, en ef háttv. 2. þm. Reykv. (JÞ) skyldi taka aftur till. sína, þá leyfi jeg mjer að taka hana upp.