18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (757)

1. mál, fjárlög 1924

Jón Sigurðsson:

Jeg á brtt. á þskj 385 ásamt háttv. 2. þm. Húnv. (ÞórJ), viðvíkjandi greiðslu til A. L. Petersens, fyrrum stöðvarstjóra. Vil jeg gera grein fyrir afstöðu okkar flm. brtt., þar sem við gátum ekki orðið samferða meiri hl. fjvn. í þessu máli.

Jeg þarf ekki að hafa langt mál um þetta; háttv. þingdm. er það kunnugt frá fornu fari. Var á síðasta þingi samþykt, að málið yrði rannsakað, og ljet stjórnin gera það, og lagðar fyrir þingið tillögur rannsóknarnefndar. Eru till. þessar allóákveðnar og bera með sjer, að reipdráttur hefir verið innan nefndarinnar. Þó hafa ekki verið svo mikil brögð að því, að nefndin klofnaði, heldur hefir hún orðið sammála um að leggja til, að ríkissjóður greiði Petersen í skaðabætur 10000 kr., eða 5000 kr. í viðbót við það, sem honum var áður veitt. Leggur nefndin það á vald stjórnarinnar, hvort hún leggi til við þingið, að þessar 5000 kr. verði veittar. Og þó er hún ekki viss um, hvort þær beri að greiða að fullu, samanber þessi orð hennar, ef hæstv. forseti leyfir, að jeg lesi þau upp:

„Nefndin býst einnig við því, að krafa Petersens fari ekki svo langt fram úr hófi, að 10 þúsund krónur sjeu ekki nær hinu rjetta en 5000 kr.“ Þetta er að vísu nokkuð óákveðið, en sýnir, að ósamræmi hefir verið í skoðunum nefndarmanna.

Með þeim störfum, sem við fjárveitinganefndarmenn höfum haft undanfarið, hefir fjvn. ekki unnist tími til að rannsaka þetta mál svo nákvæmlega sem skyldi; það getur því ekki komið til mála, að fjvn. fari að setja sig í dómarasæti í þessu máli og koma fram með nýjar tillögur eða úrskurð í máli, sem hún hefir ekki getað rannsakað.

Það er af þessum ástæðum, að við hv. 2. þm. Húnv. (ÞórJ) höllumst að tillögu rannsóknarnefndarinnar og berum fram brtt. um, að hr. Petersen sjeu nú greiddar 5000 kr. í viðbót. Annars hefði mjer verið næst skapi að greiða atkv. gegn öllum frekari fjárgreiðslum til þessa manns, en heimila honum að fara í mál við landssímastjóra eða það opinbera. Mjer er nær að ætla, að hann muni hvorki láta sjer nægja þær 10000 kr., er við leggjum til að veita honum, nje þær 15000 kr., sem meiri hluti fjvn. vill greiða honum; hann mun varla verða ánægður að heldur. Jeg skal svo ekki fara frekar út í þetta mál. Þar sem sjerstök nefnd hefir verið sett til að rannsaka það, tel jeg enga ástæðu til, að þingnefnd fari að setja sig í dómarasætið. Lægi beinast við að vísa málinu algerlega frá og láta dómstólana skera úr.

Úr því að jeg er staðinn upp, skal jeg leyfa mjer að minnast á fáein atriði önnur. Get jeg gert það með því betri samvisku sem jeg var einn af þeim örfáu, er sátu hjá við 2. umr. Fyrst vil jeg beina nokkrum orðum til háttv. frsm. samgmn. (ÞorstJ). Því miður heyrði jeg ekki alla ræðu hans, en mjer skildist af því, sem jeg heyrði, að samgmn. hefði sent tillögur um starfrækslu Esju til framkvæmdastjóra Eimskipafjelagsins. Jeg og fleiri hv. þm. höfðum enga hugmynd um þessa áætlun, en einn nefndarmanna í samgmn. hefir góðfúslega lofað mjer að líta á uppkastið að henni. Þar komst jeg að raun um, að Hofsósi, sem er annar aðalverslunarstaðurinn við Skagafjörð, er ætluð ein við koma, og Haganesvík 2. Aftur rak jeg mig á, að af höfnum við Eyjafjörð eru Ólafsfirði, sem er á borð við Hofsós, ætlaðar 5 viðkomur, og Dalvík, sem er svipuð Haganesvík, 3 viðkomur. Nú er þess að gæta, að Skagfirðingar hafa engan flóabát, en um Eyjafjörð gengur sjerstakur bátur því nær alt árið, að minsta kosti alt sumarið. Jeg get því ekki sjeð, á hverju háttv. samgmn. hefir bygt tillögur sínar. Að vísu hefi jeg ekki kynt mjer þær nákvæmlega, en ef víða er svona ástatt, dylst mjer ekki, að hjer er stigið spor aftur á bak frá því, sem var, þegar síðastliðið ár er skilið frá. Almenningur hafði vonast eftir, að nýja skipið mundi greiða úr samgönguerfiðleikunum við smærri hafnirnar. En nú kemur það upp úr dúrnum, eftir því, sem sumir nefndarmenn segja, að skipið hafi orðið of dýrt til þess, að það geti sint þessu, og liggur við, að þetta sje orðið vandræðamál.

Nú vil jeg beina þeirri áskorun til hv. samgöngumálanefndar, að hún taki málið á ný til rækilegrar yfirvegunar. Jeg ætla ekki, að hjer sje um ásetningssynd að ræða hjá hv. nefnd, heldur um breyskleikasynd, ef svo mætti kveða að orði, og er það skiljanlegt. Þegar þess er gætt, að enginn Norðlendingur á sæti í nefndinni. Enn fremur verð jeg að skora á nefndina að skrifa framkvæmdastjóra Eimskipafjelagsins um, að þetta verði leiðrjett og að smærri hafnir, þar sem enginn flóabátur er, fái sem flestar viðkomur. Hitt nær auðvitað engri átt, að sleikja upp hverja höfn þar, sem flóabátur, styrktur úr líkissjóði, gengur langan tíma ársins, svo sem á Austfjörðum, Eyjafirði og víðar.

Jeg get ekki varist því að minnast á annað atriði, brtt. frá meiri hluta sjútvn., þó að jeg búist við, að mín skoðun megi sín lítils, þegar meiri hl. sjútvn. og meiri hluti fjvn. leggjast á eitt.

Með þessari tillögu um að veita Bjarna yfirkennara Sæmundssyni lausn frá embætti með fullum launum, til þess að hann geti eingöngu starfað að fiskirannsóknum, og auk þess sjerstaka upphæð sem ferðakostnað við fiskirannsóknirnar, álít jeg gengið út á aðra braut en margir hefðu óskað. Með þessu er í raun og veru verið að stofna nýtt embætti, er mætti nefna fiskiráðunautsembætti. Það embætti mundi baka ríkissjóði 7–8 þús. kr. útgjöld árlega, eftir því hve ríflegur ferðastyrkur yrði lagður manninum. Jeg hefi verið að leggja hlustirnar við til þess að reyna að finna helstu nauðsynina á stofnun þessa embættis, en hefi ekki getað náð í neitt, er unt væri að festa hendur á. Það er um þetta embætti sem mörg önnur, að þegar verið er að reyna að smeygja einhverju slíku inn, er talað um nauðsyn og gagnsemi þess með almennum orðum, án þess að tekin sjeu fram sjerstök atriði eða rök, er sanni það. Jeg vil mælast til, að háttv. frsm. fjvn. (MP) bendi á einhver atriði, til sönnunar þessari nauðsyn, úr reynslu undanfarinna ára.

Maður sá, sem hjer ræðir um, hefir óneitanlega starfað mikið og vel. Jeg játa, að hann hefir aflað oss ýmislegs fróðleiks, en hitt er annað mál, hve mikla praktiska þýðingu þetta hefir. Það er fróðlegt að heyra, að állinn fer suður í Atlantshaf til þess að hrygna, eða að þorskurinn hrygnir á ákveðnum stöðum; það er gaman að vita þetta, en að það hafi praktiska þýðingu hefi jeg ekki rekið mig á enn þá. (JakM. Hefir það ekki praktiska þýðingu að vita um hrygningarsvæðin?). Jeg býst við, að menn þekki af æfagamalli reynslu, hvar fiskurinn heldur sig helst, en hvort hann kemur þangað til þess að hrygna eða af öðrum ástæðum mun ekki vera neitt höfuðatriði, ef menn vita aðeins, að hann kemur þangað.

Þá hefir það verið borið fram, að Danir verji stórfje árlega í þessu skyni og að við megum ekki vera minni en þeir. Þetta hefir klingt við áður, en jeg treysti okkur ekki til að vinna alt í hlutfalli við Dani. Meðan fjárhagsástæður okkar eru svo erfiðar sem nú, verðum við að neita okkur um ýmislegt, sem æskilegt væri að geta látið eftir sjer.

Mjer virðist enn fremur, að ef mönnum er hugleikið að stofna fiskiráðunautsembætti, mætti alveg eins leggja það undir Fiskifjelagið. Það hefir nú fengið talsvert aukið fje til umráða, og þar sem þessi maður er talinn bráðnauðsynlegur í þetta starf, ætti fjelagið að taka hann í sína þjónustu. Loks vil jeg taka eitt fram, sem ef til vill er aukaatriði í augum sumra manna, að hjer er verið að taka mann frá starfi — að vísu eftir tilmælum hans sjálfs — sem óvíst er, hvort nokkur hæfur maður fæst til að gegna.

Hv. þm. Dala. (BJ) hjelt því fram, að þær 20 þús. kr., sem heimilað var við síðustu umræðu að lána efnilegum mönnum til fullnaðarnáms, væri áætlunarupphæð, og skildist mjer hann telja sig þar mæla fyrir hönd fjvn. Hafi jeg skilið þetta rjett, verð jeg að mótmæla þessu fyrir mína hönd. Jeg álít þetta sem hverja aðra lánsheimild, er í felist ákveðið hámark, er stjórnin megi ekki fara yfir. Annars mun hv. frsm. (MP) væntanlega gera grein fyrir, hvernig hann lítur á þetta.

Þá skal jeg drepa stuttlega á styrkveitinguna til Páls Ísólfssonar. Það er mín skoðun, að hún hefði aldrei átt að koma inn á þennan sjerstaka lið. Nú eru veittar 15 þús. kr. til að styrkja listamenn, og eftir því, sem af þessum manni er látið, efast jeg ekki um, að hann ætti að vera sá fyrsti, er látinn væri njóta styrks á næsta ári, og er þá ástæðulaust að hafa þetta nafnbundinn styrk. Einhver ljet þess getið, að hjer væri að ræða um síðasta styrk til fullnaðarnáms, en því miður býst jeg þó ekki við, að þetta verði síðasti styrkurinn. Reyndin hefir því miður oft orðið sú, að listamenn vorir hafa líka orðið að fá styrk til að lifa.

Annars er ekki unt að verjast þeirri hugsun, þó að það komi þessum manni ekki beinlínis við, að stjórnin hafi við úthlutun listamannastyrksins reynt að hnitmiða niður, hverjir mundu helst geta flúið á náðir þingsins og fengið sjerstakan styrk. Mörgum óþektum mönnum var úthlutaður styrkur, en algerlega gengið fram hjá mörgum þeim, sem hafa notið þessa styrks undanfarin ár. Jeg efast ekki um, að hæstv. forsrh. (SE) mundi mæla með sjerstökum styrk til þeirra, er gengið var fram hjá, en það er í raun og veru sama sem að hækka listamannastyrkinn. Og þessi styrkur til Páls Ísólfssonar er ekki heldur annað en grímuklædd hækkun.

Að endingu skal jeg geta þess um gistihúsið við Geysi, þar sem till. um fjárveitingu til endurbyggingar þess hefir verið tekin upp aftur, að þó að mjer sje áhugamál, að aftur verði komið upp gistihúsi á þessum stað, sje jeg mjer ekki fært að greiða þessari tillögu atkvæði, eða öðrum í sömu átt, eins og nú er þröngt um fjárhaginn.