18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í B-deild Alþingistíðinda. (759)

1. mál, fjárlög 1924

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Örfáar aths. út af ræðu háttv. frsm. fjvn. (MP). Hann gat þess út af till. frá háttv. 1. þm. Reykv. (JakM), um uppbót á laun starfsmanna landssímans, að sig furðaði á því, að jeg hefði ekki tekið bendingum fjvn. um að koma fram með frv. um laun þessara manna.

Það er rjett, að jeg fjekk brjef frá háttv. fjárveitinganefnd, þar sem jeg var hvattur til þessa, að því er virtist, og nú veit jeg, að jeg hefi átt vísan stuðning þaðan; en mjer finst ekki tímabært að fara nú að koma með breytingar á launalögunum, því eins og andinn er nú í þinginu, mundi það síst verða til sparnaðar, sem jeg ætlaðist þó til, að þær yrðu.

Jeg er að vísu háttv. frsm. (MP) sammála um, að ekki eigi jafnaðarlega að gera breytingar á launalögunum með fjárlagaákvæðum; en það er nú samt iðulega gert, og hafa einkum mikil brögð verið að því að undanförnu, sem öllum þeim, er nokkuð þekkja til þingsögunnar, er fullkunnugt um.

Annars skal jeg ekki fara að tala um launalögin; þau eru ekki gömul. Ef ætti að breyta þeim, þá þyrfti að gera launajöfnuð, og máske fremur lækka sum launin. Jeg get ímyndað mjer, að þetta komi fram á næsta þingi. Jeg vil ekki, að svo áliðnum þingtíma, hleypa þessu þingi út í umræður um launalögin, og sje því ekki fært að taka til greina bendingar frá fjvn. um það efni. En í hinu er engin mótsögn, að taka til greina umbótatill. um hækkun á launum símastúlkna til bráðabirgða í fjárl. og fjáraukal. þangað til launalögunum verður breytt. Þó að þm. vilji ekki hækka laun símamanna alment, þá vilja þeir máske hækka þennan launaflokk. Og ef jeg sje, að brtt. háttv. 1. þm. Reykv. (JakM) fá góðan byr, kem jeg — og ef til vill hvort sem er — með brtt. við fjáraukalögin.

Þá hefir háttv. 2. þm. Skagf. (JS) og aðrir minst á ferðaáætlanir Esju. Jeg hefi ekki sjeð þær. En háttv. frsm. samgmn. (ÞorstJ) hefir sagt mjer, að þær væru sendar stjórn og framkvæmdarstjóra Eimskipafjelagsins, sem nú er staddur í Kaupmannahöfn til að taka á móti skipinu, svo að hann gæti gert þær breytingar, sem honum sýndist. Þessar áætlanir eru því aðeins till., ráðgefandi, en ekki bindandi fyrir stjórnina. En jeg hefi sem sagt ekki sjeð þær. Enda held jeg það sje betra og heppilegra, að framkvæmdarstjórinn ráði meira um áætlunina, heldur en að reiptog verði um það meðal þingmanna, þar sem hver otar sínum tota og berst fyrir sinni höfn.

Loks skal jeg minnast á mál Petersens. Jeg skildi háttv. frsm. svo, að hann teldi álit nefndarinnar, sem rannsakaði þetta mál, vera varnarskjal, en ekki óhlutdrægt álit. Ef hann ekki mótmælir, skoða jeg það rjett skilið. En þetta er gersamlega rangt. Jeg skipaði þrjá valinkunna sæmdarmenn í þessa nefnd — svo að jeg noti þá gömlu málvenju, — og skal jeg tilfæra nöfn þeirra: Sigurður Þórðarson fyrverandi sýslumaður, Gísli J. Ólafson símastjóri og Vigfús Einarsson fulltrúi í stjórnarráðinu. Jeg get ekki annað sjeð en að þessi nefnd hafi verið vel skipuð til starfsins; en um skýrsluna verð jeg að segja, að hún er alveg óhlutdræg, en jeg hefði óskað eftir ákveðnari tillögum frá nefndinni um niðurstöðu hennar. Jeg skal geta þess, að háttv. 2. þm. Skagf. hefir rjett fyrir sjer í því, að alls ekki ætti að veita meira en 10 þús. kr. samkv. skýrslunni og að búið er að borga út 5 þús. af þessari upphæð.

Að endingu skal jeg geta þess, að jeg vildi ekki leggja dóm á þetta mál, og gerði það ekki, enda gaf þingsáltill. frá síðasta þingi ekki ástæðu til þess.