18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

1. mál, fjárlög 1924

Magnús Guðmundsson:

Það var viðvíkjandi ferðaáætlun Esju, að jeg stóð upp. Eftir því sem mjer hefir skilist, þá hefir samgöngumálanefnd ekki gert áætlun fyrir hana. En hver hefir þá gert hana? (Ýmsir: Hún er ekki til!). Hæstv. atvrh. (KIJ) segist heldur ekki hafa gert þessa áætlun. En Esja er nú samt væntanleg á morgun og búið er að gefa út auglýsingu um fyrstu ferðirnar. Þó vill enginn gangast við áætluninni. En það hefir nú komið skeyti frá framkvæmdarstjóra Eimskipafjelagsins, Nielsen, sem jeg skal lesa upp og hljóðar svo:

„Har ikke arrangeret Esjas fartplan, kun ansat rammernes hovedanlöbe samfærdselsministeriet skulde udfylde anlöbene for hver rejse.

Nielsen Eimskip.“

Hann hefir því ekki heldur ákveðið ferðaáætlunina. Samgöngumálaráðherra hefir ekki sjeð hana. Nei, það sem hjer hefir gerst, er, að samgmn. hefir farið á bak við þing og stjórn með þessa áætlun og er búin að búa út áætlun fyrir 7 ferðir, svo kúfurinn verður nú farinn að lækka af árinu, þegar Esja er búin að fara þær ferðir. (MJ: 3 mánuðir af 12). Já, en það eru nú heldur ekki nema 8 eftir af árinu. Sem sagt, það vill enginn viðurkenna að hafa búið þessa áætlun til.