18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (772)

1. mál, fjárlög 1924

Jón Sigurðsson:

Jeg hafði hugsað mjer að leggja til, að umr. yrði slitið, en af því að það er sýnilega kominn móður í menn. sleppi jeg því. Jeg skal því ekki segja nema fáein orð að þessu sinni.

Jeg vil þá fyrst snúa mjer að háttv. frsm. fjvn. (MP) út af því, sem hann lagði út af ummælum mínum og nefndarinnar um Petersensmálið, að 15000 krónur væri ekkert fjær sanni en 5000 kr. Þetta er algerlega röng skýring eftir venjulegri málvenju. Í nefndarálitinu er talað um tvær upphæðir. 5 og 10 þús., hvor þeirra væri nær sanni, og eftir því orðalagi mætti segja, að næst sanni væri t. d. 8 þúsund. Þetta veit hv. þm. vel, þó að hann vildi leggja þessa meiningu í þetta, sínum málstað til bóta. Því er borið fyrir af meiri hluta fjvn., að ef upphæðin væri höfð svo há, sem hún leggur til, þá væri öllum skaðabótakröfum lokið af hans hendi. Jeg veit ekki til, að neitt liggi fyrir, sem sanni það, og vil draga það í efa, að svo yrði. En meiri hluti nefndarinnar vill auðsjáanlega kaupa á sig frið með þessu.

Um styrkinn til Bjarna Sæmundssonar skal jeg vera fáorður. Jeg álít, að starfsemi hans heyri undir Fiskifjelagið. Hvað gagnið af henni snertir, þá skal jeg vera fáorður. Jeg held, að við háttv. þm. Str. (MP) sjeum báðir jafnsnjallir útgerðarmenn. (MP: Nei, jeg er betri). Jeg efa það.

Jeg skal þá snúa mjer að samgmn. Mjer skildist helst á formanni hennar, að ekki mætti ræða um till. hennar. En jeg mótmæli því algerlega. Jeg held einmitt, að rjett sje að ræða till. hennar við þessa umræðu fjárlaganna, ekki síst, þegar um nýtt fyrirkomulag eða verulegar breytingar er að ræða. Þá eiga þingmenn einmitt heimtingu á að fá að láta í ljós álit sitt um það og koma fram með óskir sínar. Hann sagði, að jeg hefði verið að spá hrakspám, en jeg sagði bara það, sem ýmsir þingmenn hafa sagt mjer, að skipið myndi verða of dýrt til að koma inn á smærri hafnir. Ef svo verður, þá tel jeg það sannkallað vandræðamál.