18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 995 í B-deild Alþingistíðinda. (773)

1. mál, fjárlög 1924

Lárus Helgason:

Það eru aðeins fáein orð út af till. minni á þskj. 369. Jeg er ekki viss um, að jeg hafi áður tekið nógu skýrt fram þörfina á þessari fjárveitingu. Hún á sem sje að ganga til viðbótarbyggingar við skólahúsið í Vík, svo hægt sje að halda þar uppi unglingakenslu. Börnin eru orðin svo mörg, að unglingakenslan verður að leggjast niður, ef ekki er bætt við húsrúmi. En það er ilt, að þurfa að vísa þeim unglingum, sem vilja afla sjer meiri mentunar en barnaskólarnir veita, burt úr hjeraðinu. Hjeraðið er afskekt og þörf á að halda unglingunum heima.

Þá var það, að háttv. þm. Barð. (HK) áleit, að tillaga mín í XXXVT. lið, um bankastjórana. væri fram borin í hefndarskyni. En þetta er algerlega rangt. Jeg held, að mörgu hafi verið neitað hjer, sem átt hefir meiri rjett á sjer. Þessi eftirlaun eru há, og ætti síst að þurfa að bæta þau upp. Og þar sem feldar voru uppbætur til embættismanna, þá er lítið samræmi í að bæta miklu hærri laun upp. Þessar getsakir háttv. þm. eru því algerlega rangar.