18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

1. mál, fjárlög 1924

Þórarinn Jónsson:

Það er komið greinilega í ljós, að samkomulagið hefir ekki verið sem best innan háttv. samgmn. Hv. 1. þm. N.-M. (ÞorstJ) sagði, að samgmn. beggja deilda hefðu sent tillögur, án þess að vera sammála um þær. Þá hafa till. verið sendar til framkvæmdarstjóra Nielsens, en ekki til stjórnarinnar. En hvernig hefir átt að koma þessum sundurþykku tillögum saman, veit jeg ekki.

Það er alveg nauðsynlegt, að þm. fái kost á að kynna sjer þessar áætlanir og geti gert tillögur um einstök atriði, því samgmn. getur auðveldlega verið svo hlutdræg í tillögum sínum fyrir einstök hjeruð, að þm. þeirra geti alls ekki unað við það. Því er líka svo fyrir komið nú, að enginn Norðlendingur á sæti í nefndinni, og þessi áætlun, sem jeg nú hefi sjeð, ber þessa ljós merki. En jeg fæ líka hvarvetna frá þau sömu svör, að henni verði ekki hjeðan af breytt. Hvort þessi áætlun er tillaga efri eða neðri deildar, veit jeg ekki, eða sambræðsla úr báðum, en hún er jafnafleit hvort sem er.

Þá mintist hv. 1. þm. N.-M. (ÞorstJ) á bátastyrkinn og taldi fráleitt að gera tillögur um það fyrir árið 1924. Hvers vegna er það fráleitara en verið hefir? Og hvað veit þingið líka um þessa úthlutun fyrir yfirstandandi ár? Alls ekkert. Þetta er hvorttveggja falið, en á alls ekki að líðast lengur. Heldur ekki er nein þörf á því að gera þetta að fjáraukalagaatriði, og hefir ekki verið gert.

Þar sem sami hv. þm. talaði um, að fjárvn. vildi fá öll mál í sínar hendur, þá er þetta auðvitað aðeins sagt af gremju, af því hann finnur, hvað lítið traust samgmn. hefir. En það er óhætt að fullyrða það, að betur hefði verið gengið frá þessum málum í höndum fjvn. Og þegar þess enn fremur er gætt, að samgmn. þarf að fá samþykki fjárvn. á tillögur sínar áður en þær koma fyrir deildina, sýnist þessi tvískifting vera alveg óþörf.