30.04.1923
Efri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

1. mál, fjárlög 1924

Halldór Steinsson:

Það þykir hlýða, að minst sje á brtt. þær, sem hafa í för með sjer útgjöld fyrir ríkissjóð. hversu smáar sem þær eru.

Jeg hefi komið fram með eina brtt.. á þskj. 482, um að Staðarsveit sjeu veittar 200 kr. til læknisvitjunar.

Eins og hv. deild er kunnugt, þá hefi jeg oft flutt áður fyr frumvarp til laga um að gera Hnappadalssýslu að sjálfstæðu læknishjeraði, þó ekki fengi fram að ganga. Þetta var nú ekki flutt á síðasta þingi, þó ekki væri það látið ógert af því, að þörfin væri minni nje kröfur um það. Það var þröngur fjárhagur ríkissjóðs, sem olli því.

En til að bæta nokkuð úr erfiðleikum hjeraðsins, þá voru veittar 200 krónur til læknisvitjunar þremur hreppur sýslunnar. En Staðarsveit var skilin eftir.

Allir þessir 4 hreppar eiga jafnerfiða aðstöðu til læknisvitjana. Fróðárheiði liggur milli Staðarsveitar og Ólafsvíkur. Er hún oft illfær á vetrum. Það hefir jafnvel komið oftar fyrir en einu sinni í minni læknistíð, að ekki hefir náðst í lækni vegna þess, að heiðin hefir verið ófær, og þá til óbætanlegs tjóns fyrir hlutaðeigendur.

Þetta er sanngirniskrafa og í samræmi við ýmsa aðra hreppa, sem hafa fengið samskonar styrk. Vona jeg því, að hún nái fram að ganga.

En fyrst jeg stóð upp, verð jeg að minnast á 4. brtt. fjvn., á þskj. 458, um að fella niður fjárveitingu til aðstoðarlæknis á Ísafirði. Jeg varð satt að segja forviða. þegar jeg sá, að nefndin hafði lagst á þennan mann. Þessi fjárveiting er samkvæmt lögum frá 1907, sem enn eru í gildi. Og þótt fjárveitingin hafi fallið niður á Akureyri, þá er því ekki saman að jafna, því það er af því, að aðstoðarlæknirinn, sem þar var, vildi hana ekki. Hún hefir heldur ekki verið afnumin með lögum þar.

Jeg hygg nú helst, að hv. fjvn. hafi ekki munað eftir þessum lögum, svo að það sje af vanþekkingu, en ekki hlutdrægni, að þessi till. hefir komið fram. Það væri hart fyrir starfsmenn landsins, ef þeir þyrftu að höfða mál gegn því opinbera til þess að fá lögmæltum kröfum sínum fullnægt.

Þá hefir hv. fjvn. lagt til að fella niður alla síma, að einum á Austurlandi undanskildum. Þetta er nú ærið hart, því ekki er margt, sem er nauðsynlegra á þessu landi en símarnir.

Nefndin hefir gengið fram hjá áliti og tillögum landssímastjóra í þessu efni og einnig landsstjórnar. Landssímastjóri hafði lagt til, að 4 línur væru látnar ganga fyrir, og er Grundarfjarðarlínan ein af þeim. Hinar tvær línurnar, sem hv. Nd. bætti við, Hraungerði — Húsatóftir, sem komst inn fyrir dugnað eins manns í fjvn. Nd., og Þorlákshöfn–Selvogur, sem engin meðmæli hafði frá landssímastjóra og á óskiljanlegan hátt var smeygt inn í fjárlögin í Nd. En þótt jeg vilji eigi beint leggja á móti þessum línum, þá stendur hjer þó misjafnlega á, því hinir voru áður viðurkendir.

Annars sýndist ekki svo mikil hætta á því að láta þessa síma standa í fjárlögunum, vegna þess, að sú aths. fylgdi, að þeir væru því aðeins lagðir, að fje væri fyrir hendi. Og ef nefndin álítur, að ekki verði fje til þess, verður það enginn fjáraustur. Þetta er því aðeins sparnaður á pappírnum.

Hv. frsm. (EÁ) sagði, að þessir símar þyldu vel eins árs bið. Mjer fanst þessi hv. þm. tala fremur kæruleysislega um þetta mál. Jeg get trúað því, að hlutaðeigandi hjeraðsbúar líti öðruvísi á málið. Og ef hjer hefði verið að ræða um símalínu í kjördæmi hv. frsm. (EA), þá get jeg hugsað, að kveðið hefði við annan tón hjá honum. Annars vil jeg þakka hæstv. atvrh. (KIJ) fyrir það, að hann lítur alveg sömu augum á þetta og jeg geri.

Þá er það ljósmæðranámsstyrkurinn. Jeg held, að hv. fjvn. hafi ekki verið nógu kunnug málinu og að hún hafi ekki leitað álits landlæknis, sem þó var sjálfsagt, þar sem hann var sá maðurinn, sem hafði best vit á þessu. Þetta var rannsakað nákvæmlega 1911, og landlæknir skrifaði þá bók um rannsóknirnar. Niðurstaðan varð, að 12 stúlkur þyrftu að læra á ári að meðaltali. 1912 voru svo samin lög um yfirsetukvennaskólann. Var þeim þar ætlaður 45 kr. námsstyrkur hverri á mánuði. En sú upphæð var fyrir stríðið tiltölulega hærri en sá námsstyrkur, sem þær hafa nú. Þegar dýrtíðin óx á stríðsárunum, gátu yfirsetukonur ekki fremur en aðrir starfsmenn lifað á sínum lágu launum, og afleiðingin var sú, að þær sögðu af sjer hópum saman, og er nú ekla á þeim alstaðar á landinu. Þess vegna er það, að nú nægir ekki að útskrifa 12 námsmeyjar á ári. Nú eru 17 í skólanum og allar pantaðar fyrirfram. Dvalarkostnaður námsmeyjanna hjer í Reykjavík hefir komist hæst upp í 150 kr. á mánuði, en fer nú lækkandi og mun nú vera 110–120 krónur mánaðarlega.

Jeg held þess vegna, að ekki komi til mála annað en að láta styrk þann, sem Nd. samþykti. halda sjer. 7 þús. kr. er síst of mikið, og það þýðir ekki að áætla þessa upphæð lægri, því við getum ekki verið án yfirsetukvenna. Það nær engri átt að hnitmiða upphæðina við einhvern ákveðinn nemendafjölda.