30.04.1923
Efri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

1. mál, fjárlög 1924

Guðmundur Guðfinnsson:

Jeg á nokkrar brtt. með öðrum og þykir því tilhlýðilegt, að jeg segi örfá orð. Á þskj. 482 á jeg till. um að færa fjárveitingu til embættiseftirlitsferða úr 5 þús. kr. niður í 3 þús. kr. Þetta er áætlunarupphæð, en reynslan er sú, að slíkar upphæðir eru oftast notaðar allar. Það er því heppilegra að hafa upphæðirnar heldur lægri, til þess að hvetja menn ekki til skemtiferða, en hins vegar getur stjórnin altaf veitt fje til eftirlitsferða, ef þess er þörf. Jeg býst því við, að till. verði tekið vel.

Þá á jeg brtt. um styrk til 2 hreppa til læknisvitjana. Jeg hefi athugað aðstöðu þessara hreppa með tilliti til annara hreppa, sem njóta slíks styrks, og eru þeir ekki betur stæðir, því að þarna hamla stór vötn, sem geta oft valdið miklum töfum, sjerstaklega að vetrarlagi. Jeg býst við, að þessi styrkur nægði aðeins til tveggja vetrarferða, og er það ekki til mikils mælst.

Þá á jeg till. með háttv. 2. þm. G.-K. (BK) um styrk til Sigvalda læknis Kaldalóns. Hann hefir verið viðurkendur af þinginu í aukafjárlögum, og þar sem það er fyrirsjáanlegt, að hann verður óvinnufær líka þetta ár, er ekki nema sanngjarnt, að hann haldi þeim styrk. Annars býst jeg við, að háttv. 2. þm. G.-K. (BK) tali ef til vill nánara um þetta atriði.

En fyrst jeg stóð upp á annað borð, ætla jeg að víkja nokkrum orðum að brtt. nefndarinnar. Jeg get verið stuttorður, því aðrir hafa tekið margt það fram, sem jeg vildi sagt hafa.

Jeg get ekki fallist á till. um aðstoðarlækninn á Ísafirði. Það embætti er enn þá í lögum um skipun læknishjeraða, og væri það alveg nýtt hjer á landi að leggja á menn embættisskyldur, án þess að nokkur rjettindi kæmu í móti. Maðurinn hefir ekki sagt lausu embættinu, og því engin ástæða til að hrekja hann frá því. Það er engin sanngirni í því, og jeg mun því greiða atkvæði á móti till.

Þá hefir nefndin viljað bæta launakjör símameyja, og jeg er því alveg sammála, en hins vegar hefir hún slept öðrum lágt launuðum starfsmönnum símans, sem virðast þó hafa fult eins mikla þörf fyrir launahækkun. Út af þessu hefir borist brjef frá einum slíkum starfsmanni, sem er nauðulega staddur og virðist eiga við mjög ófullnægjandi launakjör að búa. Svo mun ástatt um fleiri starfsmenn símans, og væri full ástæða til að gera þeim einhverja úrlausn.

Jeg vil ekki tala mikið um yfirsetukvennaskólann, því að mikið hefir verið um hann rætt. Háttv. G. landsk. þm. (HB) hafði þar margt eftir einni yfirsetukonu hjer í bæ, og bar það yfirleitt saman við þær upplýsingar, sem jeg hefi fengið, en þó ber henni ekki saman við álit landlæknis um þörfina, og verð jeg að taka hann trúanlegri. Landlæknir taldi 1912, að þá hefðu þurft að læra milli 10 og 12 á ári, til þess að fullnægja eftirspurninni, en á stríðsárunum hafa margar yfirgefið embætti sitt, vegna ljelegra launakjara, og enn er ekki fylt í þau skörð. Það er því ógerningur að takmarka nemendatöluna við 12 á ári. Annars líst mjer vel á það, að hjeruðin legðu eitthvað fram í þessu efni, ef það yrði til þess, að nemendurnir færu þangað heldur að afloknu námi; en um slíkt verður ekki að ræða nú, en það má taka það til athugunar síðar.

Mjer þykir undarlegt, að skrifstofukostnaður er sumstaðar lækkaður, en hækkaður á öðrum stöðum. Jeg skil ekki það samræmi.

Jeg kann ekki við að skamma nefndina lengur, því ýmislegt hefir hún vel gert, og skal jeg þar nefna styrk til barnaskólabygginga utan kaupstaða. Þessi styrkur stóð í fjárlögum 1922, en stjórnin neitaði að greiða hann og bar fyrir sig glundroða þann, sem væri í öllum skólamálum landsins. Þetta er orðið svo gamalt, að ekki þýðir að skamma stjórnina fyrir það, en nú er vel, að styrkurinn er kominn í fjárlögin aftur. Og svo jeg vitni í sjálfan mig, þá gat jeg þess í fyrra, þegar jeg var að berjast fyrir þessum styrk, að það hefði verið farið öfugt að í kenslumálunum, að stofna fyrst kennaraembætti án þess að hafa nokkurt húsnæði til þess að not yrði að kenslukröftum þeirra. Það verður að sjá um, að heilsa og líf barnanna sje ekki í veði vegna ljelegra húsakynna, og góður kennari getur ekki notið sín í ljelegum og köldum húsakynnum.