30.04.1923
Efri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

1. mál, fjárlög 1924

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg þarf ekki að deila mikið á háttv. 2. þm. Rang. (GGuðf), því okkur bar ekki svo mikið á milli. Jeg gladdist af því, að hann var mjer sammála um, að einhver takmörk eða skilyrði þyrfti að setja til þess, að styrkurinn kæmi að tilætluðum notum.

Þá sný jeg mjer að háttv. 2. þm. S.-M. (SHK). Hann vildi ekki takmarka töluna vegna þess, hve yfirsetukonur væru lausar í sessi, og þyrfti því altaf að fylla í þau skörð. Það mun vera rjett, að þær haldast heldur illa í embættum sínum, vegna þess hve þeim er illa launað. eins og háttv. þm. (SHK) benti á. En við því er aðeins eitt ráð: Að launa þeim betur. Fyr verður ekki ráðin bót á þessu, því það er ekki ráðið að útskrifa óþarflegan fjölda frá skólanum, sem svo aldrei fer í nein embætti. En þá yrði þessu máli ráðið til góðra lykta, ef launakjörin yrðu bætt; ef hjeruðin styrktu nemendurna sjálf að einhverju leyti og sjeð væri um, að þær færu í þau hjeruð, sem þær væru ákveðnar í, þegar þær kæmu í skólann.