30.04.1923
Efri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1031 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

1. mál, fjárlög 1924

Halldór Steinsson:

Jeg ætla að gera örfáar athugasemdir út af fyrri ræðu hv. G. landsk. þm. (IHB). Hún hefir vitnað í álit einnar ljósmóður hjer í bænum, og þó að það sje merk kona, þá kemur ekki til mála að meta meira skoðanir hennar í þessum efnum en skoðanir landlæknis, sem hefir verið vörður heilbrigðismálanna í þessu landi um langt skeið. Hann heldur því fram, að nú þurfi meira en 12 nemendur á ári, og jeg hefi sýnt fram á það og það er vitanlegt öllum, sem þessu máli eru kunnugir, að 12 nemendur eru ekki nægilegir. Nú er ekla á yfirsetukonum, og þessi nemendafjöldi getur ekki fylt þau skörð. Það má benda á, að síðustu ár hafa verið fleiri í skólanum, en það hefir ekki heldur reynst nægilegt.

Þá var háttv. þm. (IHB) að tala um, að nemendur ættu að hafa styrk úr hjeruðunum, en það er vitanlegt, að það hafa þær. Þær verða að leggja fram talsvert fje auk námsstyrksins; hvernig ættu þær annars að geta lifað hjer í Reykjavík?

Í þriðja lagi hjelt sami hv. þm. (IHB) því fram, að setja yrði þeim það skilyrði, er nytu styrks þessa, að þær tækju að sjer yfirsetukvennastarf að afloknu námi. Þetta kann að vera mjög æskilegt, og þætti mjer vænt um, ef bent væri á leið, sem fær væri til að tryggja þetta skilyrði.

Það er alkunnugt, að fjöldi fólks, sem notið hefir svipaðs námsstyrks, hefir hlaupið með hann til útlanda og jafnvel aldrei gefið sig að því námi, sem styrkurinn var veittur til, — hvað þá heldur orðið starfsfólk þjóðarinnar í þeirri grein. Jeg get t. d. nefnt hjúkrunarkonur. Það mun standa næst því, er hjer um ræðir.

Eins er óhugsandi að setja þeim, er nema vilja yfirsetukvennafræði, svo harða kosti. Gæti það og leitt til þess, að enginn fengist til þess að nema. þessa grein, því engin glæsileg embætti bíða yfirsetukvenna að afloknu námi.

Aðalatriðið er, að við þurfum að styrkja nógu margar stúlkur til náms í þessari grein, til þess að bætt verði úr þörf þeirri, sem nú er á yfirsetukonum.