30.04.1923
Efri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

1. mál, fjárlög 1924

Forsætisráðherra (SE):

Jeg gleymdi áðan að minnast á 7. brtt. hv. fjvn., um að fella niður styrkinn til Kristjáns Jónassonar í Borgarnesi. Það er alveg rjett hjá hv. frsm. (EÁ), að maður þessi á enga lagalega kröfu á hendur ríkissjóði. En það vakti fyrir háttv. Nd., að hann varð fyrir miklu tjóni vegna þessa taugaveika sjúklings, sem lá á heimili hans. Mun atvinna hans sem gestgjafa hafa eyðilagst að miklu leyti um mjög langan tíma.

Til viðbótar því, sem jeg sagði í fyrri ræðu minni um 4. brtt. hv. fjvn., skal jeg taka það fram, að samkvæmt lögum um skipun læknishjeraða, frá 16. nóv. 1907. 2. gr., er beinlínis kveðið svo á, að þessi aðstoðarlæknir skuli skipaður, og verður það ákvæði ekki upphafið með því að fella niður styrk þennan í fjárlögum. Kæmi þá til greina 3. gr. nefndra laga og yrði samkvæmt henni að greiða þessum aðstoðarlækni 800 kr. á ári, en samkvæmt þeirri grein voru laun hjeraðslækna 1500 kr. árlega. Hefir jafnan verið álitið, að þessu sama hlutfalli bæri að halda, aðstoðarlæknirinn hefði sem næst helmingi minni laun en hjeraðslæknirinn, og var sú upphæð tekin í fjárlagafrv.

Það hefir mikið verið rætt um yfirsetukvennaskólann. Jeg þykist vita, að háttv. 6. landsk. þm. (IHB) hefir það rjett eftir hinni mætu ljósmóður, er hann nefndi í ræðu sinni, að yfirsetukonur væru nógu margar í landinu. En jeg vil geta hins, að í gær átti jeg einmitt tal um þetta efni við landlækni, og hann taldi eklu á yfirsetukonum, og þess vegna óskaði hann, að tala námsmeyja við skólann væri ekki takmörkuð fyrst um sinn. Þessar umsagnir standa hvor á móti annari, en fara verður eftir því, sem landlæknir segir í þessum efnum.