30.04.1923
Efri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

1. mál, fjárlög 1924

Jónas Jónsson:

Jeg ætla fyrst að fara nokkrum orðum um störf fjvn. Ed., þar eð orkað hefir tvímælis um till. hennar, t. d. að fella niður síma- og loftskeytastöðvaliðina, samanber brtt. fjvn. 8.–15. Þessar brtt. eru að nokkru leyti hæstv. stjórn að kenna. Ummæli hennar við nefndina voru í þá átt, að lítið mundi hægt af þessu að gera á næsta ári, vegna fjárskorts. Ef því símarnir eru látnir standa, þá hefir það fyrst og fremst þann ókost, að það vekur tálvonir þeirra, sem eiga að njóta þeirra. Í öðru lagi vekja fjárlög með tekjuhalla altaf megna óánægju. Og margir álíta, að tekjuhalli sje, enda þótt sum útgjöldin sjeu bundin því skilyrði, að fje sje fyrir hendi, eins og hjer er gert. En vitanlega er þetta ekki allskostar rjett.

Þegar til orða kom að fullgera Kleppsspítala, var stjórnin mjög hikandi, vegna fjárskorts. Ýtti nefndin mjög undir hana að ljúka við spítalann öðru fremur.

Tilraunir nefndarinnar fóru því í þá átt, að reyna að fá fjárlögin til að líta sæmilega út, og þó jafnframt að herða á stjórninni að láta ljúka því verki, sem þjóðin bíður svo mjög eftir; síður að ráðast í nýjar framkvæmdir áður en því verki er lokið. Það er því langt frá sönnu, að við nefndarmenn viljum vanrækja allar verklegar framkvæmdir.

Það er t. d. ekki með glöðu geði, að við viljum ekki veita fje til Sláturfjelags Suðurlands, til að koma upp sútunarverksmiðju, í þetta sinn.

Ef jeg lifi næsta ár, þá verður mjer ómögulegt að vera á móti slíkri veitingu, og er ekki óhugsandi, að taka megi hana upp í fjáraukalög næsta árs, ef fjárhagur leyfir.

Samt álít jeg gott, að Sláturfjelagið rannsaki og undirbúi mál þetta eitt ár enn. Undirbúningurinn virðist enn þá ekki tæmandi, og væri gott, ef það fengi sjerfræðing til aðstoðar.

Ef þessi háttv. deild vill setja inn í fjárlögin þær verklegar framkvæmdir, sem nefndin hefir lagt til, að frestað yrði, þá er að sjálfsögðu rjettast að láta þær fylgjast allar að og ekki draga sumar þeirra út úr, því í raun og veru eru þær allar sjálfsagðar, þó að nefndin sæi sjer ekki fært annað en gera þessar brtt. sakir fátæktar ríkissjóðs.

Þá kem jeg að einstökum brtt.

Hæstv. forsrh. (SE) var ekki ánægður með að lækka útgjöldin til hagstofunnar. Fjvn. óskaði að fá nákvæma skýrslu um þessa stofnun, en fjekk ekki. En víst er það, að þrettán þúsund krónur til launa starfsmanna þessarar stofnunar, annara en þeirra tveggja, sem fá laun sín eftir launalögunum, er býsna há upphæð. Að vísu eru störfin umfangsmikil, en hins ber og að gæta, að ýmsar aðrar opinberar skrifstofur verða að halda fleiri menn en ella. einmitt vegna skýrslugerða til hagstofunnar. T. d. eykur það ekki lítið störf bæjarfógeta, að senda verður hagstofunni nákvæmar skýrslur um öll dómsmál, án þess þó að þær sjeu gefnar út. Væri því vert að athuga, hvort hagstofan gengi ekki fullríkt eftir að fá heimildir, sem hún hefir ekki starfskrafta til að vinna úr, en sem altaf er hægt að ganga að hjá ýmsum öðrum skrifstofum.

Annars er þessi liður, eins og hæstv. atvrh. (KIJ) tók fram, aðeins áætlunarliður, en er þó bending til stjórnarinnar um, hvort ekki muni vera hægt að takmarka að einhverju leyti mannahald við þessa stofnun. Þá má og geta þess, að töluverð óánægja ríkir um störf hagstofunnar, einkum að því er snertir hversu skýrslur koma seint frá henni, og því gagnið að þeim hverfandi. Mun ástandið í þessum efnum lítið betra en þegar Indriði Einarsson annaðist einn um útgáfu hagskýrslnanna. auk annara starfa. Það liggur í augum uppi, að eigi verulegt gagn að verða að hagskýrslum, verða þær að koma út jafnóðum, og þyrfti hagstofan því að vera strangari í innheimtu gagna í þær skýrslur, sem hún á annað borð gefur út. Verði þessu ekki breytt til batnaðar, missir hún tilverurjett sinn.

Þá má og beina því til hæstv. stjórnar, að kunnugt er, að sá maður, er gegnir fulltrúastörfum í hagstofunni, er kunnur að því að vinna tímum saman við önnur störf, t. d. veitir hann kosningaskrifstofu forstöðu við flestar kosningar o. s. frv. Verður manni því á að halda, að eitthvað af aukamannahaldinu stafi af því, að ekki sjeu notaðir þeir kraftar, sem hagstofunni eru beinlínis fengnir.

Hagstofustjórinn sjálfur mun vera mjög eljusamur og sparsamur maður. En ósannað er, nema hann hefði getað sparað enn meira starfsmannahaldið. Og það er óviðkunnanlegt, þó það á engan hátt þurfi að vera ranglega ráðstafað, að margt aðstoðarfólkið eru nákomnir vandamenn hans, t d. kona hans og aðrir nánir venslamenn.

Þá vil jeg taka undir með hæstv. atvrh. (KIJ), að kostnaður við embættisskeyti er óneitanlega mjög mikill, en úr því verður aðeins bætt með því, að stjórnin skapi þar aðhald, og vænti jeg þess, að hún geri sitt ítrasta í því efni.

Það má að vísu segja, að innanlands geri þetta ekki svo mikið til. Gjaldið sje tekið úr öðrum vasanum og látið í hinn. Þó er aðgætandi, að embættisskeyti geta bægt frá öðrum skeytum, og þannig rýrt tekjur ríkissjóðs.

Þá vil jeg minna.st á símana aftur.

Brtt. nefndarinnar stafa af því, eins og jeg hefi tekið fram, að henni var ant um að afgreiða fjárlögin tekjuhallalaus, og mun hæstv. stjórn vera þar á sama máli.

Nú hafa komið fjölda margar óskir um nýjar símalínur, og munu fleiri á eftir fara.

Jeg hygg, að ef þessar brtt. okkar verða feldar, þá sje ekki rjett að gera upp á milli þeirra. Annaðhvort allar eða enga. Jeg skal til dæmis lýsa yfir fyrir mitt leyti, og get jeg þar mælt af nokkrum kunnugleika, að sími að Grundarfirði mun síst nauðsynlegri en sími að Húsatóftum. Suðurlandsláglendið er tiltölulega mjög símasnautt, en aftur á móti mun Snæfellsnessýsla betur sett í þeim efnum en flestar aðrar sýslur, og er það máske dugnaði þingmanns þeirra Snæfellinga að þakka. Auk þess eru tiltölulega fá býli í Grundarfirði. Yfirleitt hlýtur að leiða til vandræða, ef gera á upp á milli brtt. nefndarinnar í þessu máli.

Í þessu sambandi skal jeg og benda á það, að ef þeir símar, sem nú eru í fjárlagafrv., verða samþyktir, verður óhjákvæmilegt að sinna bráðlega kröfum um síma inn Eyjafjörð, og svo upp Fljótsdalshjerað. Það er rangt af þingi og stjórn að leggja síma í hvert smáþorp, en láta stór hjeruð vera án hans. Kröfur frá þeim hjeruðum, sem þannig verða úti, hljóta að koma, og þingið getur ekki til lengdar þverskallast við þeim.

Jeg verð að mótmæla þeirri skoðun hæstv. atvrh. (KIJ), að raflýsing megi til að koma á Hólum, úr því að Hvanneyri sje búin að fá hana. Að vísu veit jeg vel, að það þarf að raflýsa Hóla, en jeg hefði líka verið á móti því að raflýsa Hvanneyri, ef það hefði staðið til nú. Enn fremur ber að athuga það, að þessi 20 þús. til rafveitu á Hólum eru ekki nema 1/3 af öllum kostnaðinum.

Þá eru 15000 kr. til barnaskólabygginga. Fyrir hv. fjvn. Nd. lágu margar kröfur um styrk í þessu skyni, víðs vegar af landinu. Eru þessi útgjöld óhjákvæmileg að mínu viti, enda í samræmi við það, sem varið er til viðhalds prestssetrum. Þessi upphæð getur hjálpað á mörgum stöðum — segjum að veittar verði 1000 –2000 kr. í hvern stað — og ver þingið fyrir frekari styrkbeiðnum. Jeg held því, að rjett sje að fresta raflýsingunni á Hólum um eitt ár, en bjarga við nokkrum barnaskólabyggingum, sem ekki er hægt að ljúka við, nema landið hlaupi undir bagga.

Þá eru örfá orð um aðstoðarlækninn á Ísafirði. Nefndinni var kunnugt, að til mála gæti komið, að hann ætti kröfu á hendur ríkissjóði um 700–800 kr. árslaun, en ekki meira. Þess ber nú að gæta, að á Ísafirði er ágætur hjeraðslæknir, og auk þess er kona hans læknir og mun vinna með honum án þóknunar úr ríkissjóði. Þá eru og margir fleiri læknar við Djúpið. Ástæðan fyrir því, að aðstoðarlæknir var skipaður á Ísafirði, er því horfin. Hans er ekki þörf lengur.

Annars má sem best flytja þennan lækni til Barðastrandarsýslu, úr því hann hefir ekki nóg að gera á Ísafirði. Virðist lítil sanngirni í því að ofhlaða sum hjeruð læknum, en láta önnur vera læknislaus. Í sjálfu sjer er þessi læknir „praktiserandi“, eins og læknar eru 3 á Akureyri og eitthvað 20 í Reykjavík, og ekki ástæða til að launa hann fremur en þá. Það væri eiginlega mest ástæða til að launa aðstoðarlækni á Akureyri, því eins og kunnugt er, þá er Steingrímur Matthíasson hjeraðslæknir þar ágætur skurðlæknir, og hefir því svo mikið að starfa við sjúkrahúsið, að hann má illa vera að því að sinna ferðalögum út um hjeraðið. Enda er það annar læknir, sem mest er sóttur út um hjeraðið, án þess að hann fái til þess styrk úr landssjóði. Þessi aðstoðarlæknir á Ísafirði mætir því vandræðum við samanburð, og virðist alls ekki eiga meiri rjett til launa en læknarnir á Akureyri og í Reykjavík.