30.04.1923
Efri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1038 í B-deild Alþingistíðinda. (803)

1. mál, fjárlög 1924

Guðmundur Ólafsson:

Jeg á enga brtt. við fjárlagafrv. í þetta sinn, en fyrst menn eru farnir að deila um breytingar við það, þá vildi jeg þó leggja fáein orð í belg.

Það hefir mikið verið talað um símana. Og þó jeg ætli nú ekki beint að fara að lasta verk fjvn., þá skil jeg þó ekki í því, hve mikið kapp hún hefir lagt á að fella niður fjárveitingarnar til símanna. Það sýndist þó vera fremur áhættulítið að láta þá standa með því skilyrði, er fylgdi, að til þeirra væri því aðeins veitt, að fje væri fyrir hendi.

Mjer þótti hörð orð háttv. 5. landsk. þm. (JJ) um þetta mál. En fjvn. hefir þó ekki sparað á öllum sviðum. Það þykist sjáanlega hver mestur, sem mest tekur út úr fjárlagafrv. verklegar framkvæmdir. En sömu menn hafa þó ráð á að veita nokkrar þúsundir til hvers af ýmsum einstaklingum, sem styrks leita. Háttv. fjvn. Nd. þótti víst sæmilega brjóstgóð við þessa styrkleitendur, en fjvn. Ed. hefir þó reynst enn brjóstbetri, því hún hefir bætt nokkrum við. Mjer finst háttv fjvn. þurfa að taka betur fram, hvað fyrir henni vakir. Mjer finst of mikið gert að því að stöðva ár eftir ár allar verklegar framkvæmdir, og að með því móti miði í raun og veru aftur á bak. Þá finst mjer of langt gengið að bera till. fjvn. um að fella niður símana, eins og háttv. frsm. (EÁ) óskaði, alla undir atkvæði í einu. Hvers vegna vildi ekki fjvn. láta bera till. sínar, um 70 að tölu, upp allar í einu ? Jeg mótmæli því, að borin sje nema ein breytingartillaga undir atkvæði í einu, eins og þingsköp mæla fyrir. — En hún heldur sennilega, að þær verði fremur samþyktar allar í einu heldur en ef borin er upp ein og ein.

Hv. frsm. (EÁ) sagði, að ýmsum myndi finnast nefndin vera harðhent á verklegum framkvæmdum. En mjer finst hún fremur vera mjúkhent á þeim, því hún vill ekkert láta gera. Nefndin hefir þó máske ekki staðið ver í stöðu sinni en vænta mátti á svo stuttum tíma. En mjer fanst vera ærið hörð orð háttv. 5. landsk. þm. um að þeir, sem ekki væru sammála gerðum nefndarinnar. tækju þá á sig ábyrgðina á því. Já, jeg held jeg þori nú vel að taka á mig ábyrgðina á því, þó tveir til þrír símar yrðu samþyktir með áðurgreindu skilyrði. Jeg hefi sjálfsagt einhvern tíma verið með í því, sem lakara er. Mjer finst sumt ekki þarfara, sem nefndin vill veita fje til. T. d. girðing kringum kennaraskólalóðina. Um hana hefir nú verið talað, en það hefir ekki sannfært mig. Ef girðingin á að vera til þess að verja vatni að renna inn í skólann, þá þyrfti hún sennilega að vera vatnsheld. (EA: Það á að vera steingirðing). Hún þyrfti þá líklega að ná yfir húsið, svo að hún verji að gagni. Mjer finst mundi mega veita vatninu frá. En þessi skólalóð sýnist mjer ekki svo fallegur staður, að miklu fje sje kostandi til að verja hana.

Mjer finst rjett að veita utanfararstyrk til kennara. Þetta er fjölmenn stjett og þarf að vera sem best ment. Það er ein sparnaðarráðstöfun, sem ekki er góð, að ekkert fje hefir verið veitt til barnaskólabygginga. Úr þessu vill hv. fjvn. bæta og leggur til, að til þessa sjeu veittar 15000 kr. á ári, og er jeg henni þakklátur fyrir það. Þetta komst inn í fyrra, en er ófært að svo standi lengur. Húsrúm til kenslu er víða slæmt, og það hefir slæm áhrif fyrir hjeruðin, ef enginn styrkur er veittur. Þennan styrk má ekki miða við það, sem veitt er til bygginga á prestssetrum. Þau eru eldri og færri en barnakensluhjeruðin, sem eru nýlega stofnuð og þar af leiðandi orðið að byggja frá grunni.

Mjer þótti meira gaman en gagn að hlusta á ræður hv. þm. um yfirsetukonurnar. Jeg sje ekki vel, hvernig á að tryggja það, að þær verði fastar í sessi. Það er rjett, að það þarf að styrkja þær til námsins, en þó þeim væru settir skilmálar, þá mundi það verða svo, að þær samviskusamari mundu byrja, en svo máske vera farnar eftir 2–3 ár. Reynslan hefir sýnt, að slík skilyrði reynast ekki haldgóð. Margir hafa t. d. fengið styrk til utanfarar í ákveðnum tilgangi, með settum skilyrðum, en á efndunum held jeg að hafi orðið hálfgerðar Hálfdanarheimtur. Það er ekki álitleg braut að tala um sparnað og láta hann lenda mest á þeim liðum, sem síst má án vera. Og jeg held nú, að líkur sjeu til, að því meira sem veitt væri til síma nú, því minna yrði af ýmsu ónauðsynlegu í fjáraukalögum næst. Því altaf er lögð áhersla á, að ekki verði afgangur af tekjunum.