30.04.1923
Efri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

1. mál, fjárlög 1924

Frsm. (Einar Árnason):

Umr. getur að mestu verið lokið frá minni hálfu hv. 5. landsk. þm. (JJ) tók margt fram af því, sem svara þurfti. Jeg vil þó minnast á fáein atriði. Það er þá fyrst aðstoðarlæknirinn á Ísafirði. Hæstv. forsrh. (SE) og allir læknar deildarinnar hafa tekið til máls um það og telja till. nefndarinnar varla frambærilegar. En það einkennilega er þó, að enginn hefir haldið því fram, að nokkur þörf sje á þessu aðstoðarlæknisembætti. Það virðist því bara eiga að halda starfinu til að geta launað manninn. En það er rangt að halda starfi á þennan hátt. Ætti því brtt. að ná samþykki. Jeg skal ekki dæma um það, hvort þessi læknir gæti fengið sjer dæmda þessa upphæð með lögsókn. Tel það þó vafasamt. Auðvitað ber honum engin skylda til að halda þessu starfi áfram launalaust. Enda skildist mjer á hæstv. forsrh., að hann mundi geta fengið annað embætti, þar sem hann væri orðinn reyndur og gamall læknir.

Þá eru símarnir. Hv. þm. Snæf. (HSt) tók harðast á nefndinni fyrir það, að hún hefði gengið fram hjá landssímastjóra og landsstjórn með till. sínar. En þetta eru engin undur. Það er þingið, sem ræður fjárveitingum til síma, en ekki landssíma stjóri. Hitt er vitanlega sjálfsagt, að ef eitthvað á að framkvæma, þá á að leita ráða hjá þeim, er hafa eiga framkvæmdirnar á hendi; lengra nær þeirra valdsvið ekki. Fjvn. var því í sínum fulla rjetti, þó hún leitaði ekki ráða hjá landssímastjóra.

Þá talaði hv. þm. Snæf. (HSt) um, að engin hætta hefði verið að láta símana standa vegna þeirrar athugasemdar, sem fylgdi, að þeir yrðu ekki lagðir, ef ekki væri fje fyrir hendi. Nefndin vildi því bara sýnast með þessu. En jeg álít hitt ekki síður að sýnast, að hafa það í fjárlögum, sem engin von er um, að verði hægt að framkvæma. Fjvn. álítur, að ekkert sje unnið við það, þó þingmenn komi heim með þær fjaðrir í hatti sínum, sem eru einskis virði.

Sami hv. þm. (HSt) sagði, að ef kjördæmi frsm. hefði átt von á símalínu, þá hefði kveðið við annan tón. Mjer þótti vænt um, að hv. þm. sagði þetta, því það gefur mjer tækifæri til að minna á það, að fyrirhugaðar símalagningar í Eyjafirði eru komnar inn í símalögin. Þetta hjerað hefir sama rjett og aðrir til síma, og er síst símaríkara en sumar aðrar bygðir, sem nú standa í frv. Innfjörðurinn hefir engan síma og ekki heldur Öxnadalur og Hörgárdalur í Eyjafjarðarsýslu. Enda tók jeg það fram í fjvn., að ef þessar línur stæðu, þá ætti líka að taka þessar línur í Eyjafirði upp. Jeg get svo að öðru leyti skírskotað til þess, sem hv. 5. landsk. þm. (JJ) sagði um þetta atriði, og um það, sem hæstv. atvrh. (KIJ) sagði um rjettmæti þeirrar símalínu, sem nefndin leggur til að gangi fram.

Þá er 3. atriðið, sem er yfirsetukvennamálið. Hv. 6. landsk. þm. (IHB) hefir nú skýrt það mál svo vel, að jeg þarf lítið að fara út í það. Hvort 12 lærlingar á ári er hæfileg tala eða ekki, skal jeg ekki dæma um. Má vera, að 12 sje of lág tala. En því, sem nefndin leggur til, að hámarksstyrkur sje 500 kr. til hverrar. vill hún slá föstu, og eins að þessi upphæð sje ekki áætlunarupphæð. Í landsreikningunum sjest, að sum árin hefir þessi upphæð komist upp í 10–20 þús. kr. Nefndin vill slá föstu, að kenslan standi í 6 mánuði, eins og gert er ráð fyrir í lögunum, þó það hafi í framkvæmdinni orðið 7 mánuðir. En 500 kr. í 6 mánuði er sem næst því að vera helmingi meiri styrkur en ráð er fyrir gert í lögunum, sem var 45 kr. á mánuði, eins og hæstv. forsrh. (SE) hefir skýrt frá.

Þá skal jeg í fám orðum minnast á brtt. einstakra þm., á þskj. 482, og skýra afstöðu nefndarinnar til þeirra.

Nefndin getur ekki fallist á 1. brtt. Hún vill ekki láta það koma fram, að dregið sje úr eftirliti með embættismönnum, nje að þeir geti komið við vanrækslu vegna eftirlitsleysis. Þetta er líka áætlunarupphæð, svo það skiftir ekki verulega máli, hvort henni er breytt eða ekki.

Þá er 2. og 3. till. á sama þskj. Nefndin hefir á hvoruga þeirra getað fallist. Þessar sveitir hafa fengið síma, og álítur nefndin, að þær eigi ekkert erfiðari aðstöðu til læknisvitjana en ýmsar aðrar sveitir landsins. Nefndin lítur jafnvel svo á, að þegar hafi verið of langt gengið í þessu efni. Vill nefndin taka það atriði til nánari athugunar til 3. umr. Ef þessir hreppar ættu að fá þennan styrk, þá gætu flestir hreppar landsins krafist hans með sama rjetti. (HSt: En þeir sem eru fyrir ?). Nefndin vill gjarnan fækka þeim.

Þá er 4. brtt., frá hv. 2. þm. Rang. (GGuðf) og hv. 2. þm. G.-K. (BK). Nefndin er meðmælt því, að hún verði samþykt.

Þá er 5. brtt., frá hv. 2. þm. S.-M. (SHK). Nefndin hefir ekki treyst sjer til að mæla með svo háum styrk. En jeg get lofað fyrir hönd fjvn., að hún muni fylgja svo sem 1500 kr. styrk í þessu skyni. ef hv. þm. vill taka brtt. sína aftur við þessa umræðu.