30.04.1923
Efri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1052 í B-deild Alþingistíðinda. (808)

1. mál, fjárlög 1924

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg get verið stuttorður. Háttv. fjvn. leggur til, að sú breyting sje gerð á meðferð þeirrar upphæðar, sem ætluð er í frv. til að grenslast eftir markaði á fiskiafurðum, að hún sje bundin við íslenskar afurðir yfirleitt. Jeg get fallist á það, að fjárveitingin sje bundin við afurðir alment, en þá álít jeg líka, að hækka þurfi liðinn, og vildi jeg skjóta því undir álit háttv. fjvn.

Þá er 55. brtt. fjvn., um að fella niður styrkinn til sútunarveksmiðju Sláturfjelags Suðurlands. Jeg átti kost á að ræða þetta við fjvn. á fundi hennar, og er jeg henni sammála um, að þetta geti þolað bið. Jeg geng út frá því, að þetta sje mjög merkilegt mál, en vegna þess, hvað kostnaðurinn er mikill, þá verður að láta það bíða, enda hægt að nota tímann til frekari undirbúnings.

Sama er að segja um ábyrgð fyrir sama fjelag, (brtt. 69).

Þá er jeg líka þakklátur háttv. nefnd fyrir þá röggsemi sína að skera niður lánsheimildir. Nd. gekk svo frá, að þar stóðu 16 slíkar lánsheimildir. En eins og útlitið er nú, þá er ekki nein von um, að hægt verði að fullnægja slíkum lánsheimildum. Þetta var þm. líka ljóst. En það er alls ekki rjett að leika sjer með slíkt. Því hlutaðeigandi menn eða fjelög sækja mjög fast að fá lánin. Og þó að það hafi verið tekið fram á þingi af hlutaðeigandi ráðherra, að ekki væri hægt að veita þessi lán, þá trúa þeir því ekki og álíta illgirni af stjórninni að veita þau ekki.

Nefndin hefir látið 4 fyrstu liði 21. gr. frv. standa, og er það rjett. Þá mun og 10. liður sömu gr. nauðsynlegur, eins og á stendur. Hinir liðirnir, sem nefndin hefir látið standa, eru máske nauðsynlegir. Jeg segi ekkert um það. En það er mikill vafi á því, að hægt verði að veita þau lán.

Um ábyrgðarheimildirnar get jeg sagt hið sama og háttv. frsm. (EÁ) sagði, að þær geta oft verið jafnvarhugaverðar og lánsheimildirnar. Þær valda líka stjórninni erfiðleikum, því ef hún álítur ekki þær baktryggingar nægar, sem menn koma með, þá er afsvar frá stjórnarinnar hálfu skoðað sem illgirni. Enn fremur getur verið vafi á því, hvort stjórnin á að taka gild veð einstakra manna. Jeg er því alveg sammála fjvn. um breytingar hennar við 21. og 22. gr.