30.04.1923
Efri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

1. mál, fjárlög 1924

Björn Kristjánsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. á þskj. 482, þess efnis, að dr. Helga Pjeturss verði veittur 5000 kr. styrkur, í staðinn fyrir 4000 kr., eins og verið hefir. Jeg hefi leitað mjer upplýsinga um fjárhag þessa mæta manns, og mun hann vera afarþröngur, sem ekki er að furða, þar sem hann hefir öll styrjaldarárin orðið að lifa á þessari upphæð með allþunga fjölskyldu, 3 börn og ráðskonu, án þess að fá nokkra dýrtíðaruppbót á þann styrk. Heima eru tvö af börnunum, elsta barnið, drengur. ekki vel hraustur, og stúlka, en aðra dóttur sína kostar hann við nám í Höfn. Það er kunnugt, að dr. Helgi Pjeturss er einn af lærðustu mönnum þessa lands sem jarðfræðingur og málamaður. Íslensku skrifar hann afburða vel, eftir því sem málfróðir menn segja, og hann leitast við í skrifum sínum að hafa sem best áhrif á hugarfar þjóðar sinnar, sem best má sjá af riti hans Nýal. Svo hefir þetta rit verið viðurkent, að minsta kosti að þessu, leyti, að áskoranir liggja nú fyrir frá þjóðinni í þingmálafundargerðum að gera vel við þennan mann. Allir þekkja, hversu mikla vinnu þessi maður leggur á sig, og það þrátt fyrir það, að hann hefir stórliðið af svefnleysi. Það má því nærri geta, hversu mikið á þann mann er lagt, sem hefir löngun til að starfa að örðugum viðfangsefnum, að njóta ekki nægilegs svefns, og hafa þar á ofan miklar áhyggjur út af því að komast ekki af fjárhagslega.

Jeg hygg, að ef þingið sjer nú ekki fært að láta þennan mann lifa neyðarlausu lífi, fjárhagslega sjeð, þá verði hann einn af þeim mönnum, sem þjóðin síðar iðrast eftir að hafa ekki hjálpað á meðan Hjálpin var möguleg.

Jeg vonast því til, að háttv. deild samþykki brtt., enda hefir háttv. Nd. í fjáraukalögunum viðurkent þörfina.

Jeg kem þá að brtt. minni undir tölul. VII á þskj. 482. um að veita Goodtemplarafjelaginu 10 þús. kr. næsta ár. Var till. þessi feld í Nd. með litlum atkvæðamun. Jeg sje, að fleiri brtt. fara í sömu átt, en jeg held mjer þó við þessa.

Á síðasta þingi flutti jeg till. sama efnis, og var sú till. tekin til greina að nokkru leyti. Þá voru veittar 3000 kr., og við það stendur. Jeg lýsti því þá, hversu miklu góðu það fjelag hefði komið til leiðar frá því það var stofnað og fram að því að bannlögin voru samþykt, að það hefði haft svo mikil áhrif á hugi manna í landinu, að menn alment væru farnir að skammast sín fyrir að láta sjá sig ölvaða. Og drykkjuskapur var þá, að heita mátti, alveg úr sögunni.

Nú er hugsunarháttur manna breyttur, ekki síst ungra manna, og verður því að hefja nýja baráttu á mórölskum grundvelli gegn vínnautninni, en til þess þarf allmikið fje. Jeg gat þess þá, að þetta fjelag væri eitt af þeim sárfáu fjelögum, sem hefði unnið og starfað án tillits til eigin hagsmuna, aðeins með það fyrir augum að útrýma áfengisbölinu.

En flestir meðlimir reglunnar munu vera fremur fátækir. Reglan þarf því verulegs stuðnings við. Eins og jeg tók fram þá, þarf enginn að óttast, að reglan beiti sjer nú fyrir áhrifum á löggjöf landsins, eins og komið er. Reglan hefir sýnt svo mikla stillingu í svo viðkvæmu máli eins og Spánarmálið var, enda eru aðalleiðendur hennar nú viðurkendir ágætsmenn.

Jeg vænti því þess, að háttv. deild fallist á tillöguna.

Þá er það ein brtt. nefndarinnar, sem jeg þarf að minnast á. Hún er við 21. gr. 11, um að fella niður lánsheimildina til Jóns G. Ólafssonar. Þeirri till. er jeg mjög mótfallinn. Þessi maður er stýrimaður á Borg og hefir gert ýmsar merkar uppgötvanir, og fyrir 2 þeirra hefir hann sótt um einkaleyfi í Þýskalandi. Getur hann fengið einkaleyfi þetta eftir dálítinn undirbúning í þrennu lagi. Önnur aðaluppgötvunin er gangráður í gufuvjel. Hin er aflvjel, sem stækka má og minka eftir þörfum og nota má sem eimvjel og í stað vatnstúrbínu og dælu. Nú þarf hann að fá einkaleyfi í helstu löndunum, svo sem Englandi og Bandaríkjunum, svo að hann geti haft full not af uppgötvun sinni, og kostar það 10 þús. kr. Auk þess verður hann að láta smíða sýnishorn af þessum áhöldum. Einkaleyfisstofan hefir farið lofsamlegum orðum um uppgötvanir þessar.

„Praktisku“ notin af þessum uppgötvunum geta orðið mikil. Fyrst er það nú heiðurinn fyrir Ísland, að eiga slíkan uppgötvara, og svo fje, sem kemur inn í landið. Slík einkaleyfi eru oft seld háu verði, stundum svo miljónum skiftir. Er því ekki lítið varið í að tryggja uppgötvaranum, og þá um leið landinu, þetta fje. Að öðrum kosti mundi þessi maður verða að snúa sjer til erlendra fjárgróðamanna og missa megnið af arðinum.

Jeg vil því mælast til, að hin hv. fjvn. vildi fresta atkvgr. um þessa till. og taka þetta mál til nýrrar yfirvegunar til 3. umr. Jeg er þakklátur hv. fjvn. fyrir, að hún hefir tekið vel till. um styrkinn til Sigvalda Kaldalóns læknis.

Loks á jeg brtt. á þskj. 482, þar sem farið er fram á að veita Árna Jóhannssyni bankaritara dálítil eftirlaun fyrir þjónustu hans í Landsbankanum um 10 ára skeið, þar af eitthvað 2 ár sem bankastjóri við útibúið á Eskifirði. Farið er fram á 600 kr. á ári, en dýrtíðaruppbót slept, af því hann hefir fengið stöðu annarsstaðar.

Hann sótti um þessa þóknun til bankastjórnarinnar, en hún vísaði til þingsins, eins og vonlegt var.

Hr. Árni segist hafa sagt upp útibússtöðunni vegna vanheilsu. Jeg get gefið þessum manni þann vitnisburð, að hann var annar hæfasti maðurinn á meðal starfsmanna bankans, sem þar voru í minni tíð; með afbrigðum iðinn og skyldurækinn maður, sjerstaklega verkhagur á alla bókfærslu og fyrirkomulag hennar. Jeg tel því bankanum mikinn skaða að hafa mist þennan mann. Hann hefir bestu endurskoðunarhæfileika, og ætti því að vera sjálfkjörinn endurskoðandi þar, sem opinberrar enduskoðunar þarf við, t. d. í sparisjóðum og bönkum.

Þá vildi jeg aðeins minnast á Eyrarfoss, sem hv. fjvn. vill láta fella út úr frv. En jeg held, að það sje ekki rjett og að hv. fjvn. ætti að athuga þetta betur. Eyrarfoss er í á, sem rennur fram með Vatnaskógi, sem er eign landsins. Ef lax gæti gengið svo langt upp eftir ánni. fengi landssjóður það máske endurborgað aftur, fyrir veiðileyfi, sem hann legði til þessarar framkvæmdar.