03.05.1923
Efri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (818)

1. mál, fjárlög 1924

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg á eina brtt. á þskj. 519,1, sem jeg vildi segja nokkur orð um.

Jeg þykist vita, að öllum háttv. deildarmönnum sje kunnugt um það, að eitt af mörgu, er þeim fjelögum Árna Magnússyni prófessor og Páli lögmanni Vídalín var falið að inna af hendi, þá er þeir ferðuðust um landið til að semja jarðabókina miklu, var að taka manntal um land alt.

Þeir framkvæmdu manntal þetta árið 1703. Var það síðan sent út til Kaupmannahafnar og lá þar um langan tíma í Leyndarskjalasafninu og Ríkisskjalasafninu. Eldri fræðimönnum á 18. öld var kunnugt um manntal þetta og þeir hafa notað það, en síðan gleymdist það um hríð og er stutt síðan menn fóru að gefa því gaum aftur. En á síðustu árum hafa ættfræðingar og ýmsir áhugamenn í þeim efnum aðrir skrifað upp kafla úr því, sem þeim hafa mjög að haldi komið við rannsóknir sínar.

Í fyrra haust var manntal þetta ljeð hingað heim og er nú geymt í hagstofunni.

Þetta manntal er alveg einsdæmi, og á engin þjóð í heimi þess líka. Það er alveg fullkomin skrá yfir hvert mannsbarn á landinu með nafni, föðurnafni, aldri, stöðu á heimilinu, hvort viðkomandi er húsbóndi, húsmóðir, barn þeirra, hjú eða niðursetningur o. s. frv. Enn fremur er víða tilgreint framtal hjá hverjum bónda. Það er því auðsætt, hverja þýðingu manntal þetta hefir, eigi aðeins fyrir ættfræðina, heldur og fyrir sögu landsins í heild, og sjerstaklega fyrir hagfræðina.

Fyrst nú safn þetta er komið heim, þá er okkur ekki vansalaust að reyna ekki að koma því út, láta prenta það.

Auðvitað þyrftu, ef vel væri, að fylgja leiðbeiningar og athugasemdir sjerfróðra manna, en bæði yrði það mjög dýrt, og svo er það ekki beinlínis nauðsynlegt fyrst um sinn. Þegar manntalið er komið út, geta sagnfræðingar komið með allar sínar athugasemdir. Eftir manntali þessu má tengja ótal ættliði saman á marga vegu, þá, er menn áður voru í vafa um eða vissu ekkert um, því að manntalið er hreinasta gullnáma fyrir ættfræðina. En eins og áður var sagt, þá er ekki síður mikils vert fyrir hagfræðina, og yfirleitt sögu landsins, að fá manntalið gefið út.

Má þar meðal annars sjá, hversu mikið fje hver sveit lagði til ómagaframfæris í þá daga, og það var oft meira en lítið. Sem sagt. safn þetta er hið dýrmætasta, hvernig sem á það er litið.

Hjer er farið fram á litla fjárupphæð til að byrja með, en auðvitað verður að halda áfram fjárveitingum til útgáfunnar, ef byrjað verður á því. Mun ríkissjóði ljettara að styrkja þessa útgáfu smátt og smátt heldur en með stórum fjárframlögum í einu.

Jeg gæti lýst nauðsyn þessa máls og hversu mikla þýðingu það hefir enn betur en hjer er gert. Jeg læt þetta samt nægja og vænti þess, að háttv. deildarmenn skilji, hvert gildi manntalið getur komið til að hafa, ef því verður komið út, og ljái styrk þessum hið besta fylgi.

Þá er önnur brtt., sem jeg ætlaði að minnast stuttlega á. Undir lið VIII á þskj. 519 er brtt. frá háttv. 2. þm. Rang. (GGuðf). Mjer er að vísu ekki ljúft að mæla með auknum lánsheimildum, en þetta lán, sem hjer ræðir um, er óhjákvæmilegt að veita, verði nokkur tök á því. Holtavegurinn má heita ófær með öllu og hefir verið það í 2–3 ár, svo að það er blátt áfram brýn nauðsyn að endurbyggja hann hið allra fyrsta. Nú stendur svo á, að sýslumaður þeirra Rangæinga hefir leitað fyrir sjer um lán handa sýslunni í þessu skyni, en báðir bankarnir hjer hafa neitað, hvort sem um getuleysi þeirra eða vantraust þeirra á sýslunni er að ræða. Liggja fyrir skrifleg skilríki um neitunina frá báðum bönkunum.

Því er eigi annað sýnna en að landssjóður hljóti að hlaupa undir bagga með þessari sýslu, eins og hann hefir oft gert með Árnessýslu.