03.05.1923
Efri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

1. mál, fjárlög 1924

Karl Einarsson:

Jeg á hjer brtt. á þskj. 519, sem jeg vona að hv. deild álíti meinlausa. Hún er um að veita stjórninni heimild til að ábyrgjast alt að 80 þús. kr. lán til Vestmannaeyjakaupstaðar, til aukningar rafveitunni þar. Þetta er endurveiting; hefir staðið í fjárlögunum tvívegis áður. Það gefur að skilja, að rafstöð á erfiðara uppdráttar í Vestmannaeyjum en víða annarsstaðar, því að Vestmannaeyingar hafa ekki vatn handa sjer að drekka, hvað þá til að reka með rafstöð.

Þá á jeg aðra brtt. á þskj. 535. Eins og kunnugt er, sóttu starfsmenn ríkisins í Reykjavík um 25% launauppbót vegna dýrtíðar, og þá sjerstaklega vegna hinnar háu húsaleigu. En Nd. fanst ekki hægt að veita þessa uppbót, ekki vegna þess, að hún væri ekki sanngjörn, heldur vegna hins, að raddir komu utan af landi um, að líkt væri ástatt, og ef hefði átt að veita öllum þá uppbót, hefði þetta orðið svo mikil fúlga, að ríkissjóður hefði ekki mátt við því, eins og fjárhagur hans er nú. Þá myndaðist hjer í Reykjavík fjelagsskapur, sem nefnist Byggingarfjelag starfsmanna ríkisins. Þetta fjelag hefir nú sótt um 25 þús. króna styrk til þess að koma upp hentugum íbúðum fyrir sig, þó þannig, að hann fari ekki fram úr 15% af öllum byggingarkostnaðinum. Líka fór fjelag þetta fram á, að ríkisstjórninni væri heimilt að ábyrgjast lán fyrir því, sem á vantaði byggingarkostnað, gegn 2. veðrjetti í húsunum. Fjelagsmenn segja í skjali, sem þeir sendu, að þeir sjeu svo illa staddir, að þeir geti ekki lagt neitt af mörkum. enda er það skiljanlegt, þegar litið er á, hvernig farið hefir verið með embættismenn þessa lands síðan 1916. Laun þeirra hafa verið svo lág, að ómögulegt hefir verið fyrir þá, sem ekki höfðu annað en launin að lifa af, annað en eta upp eignir sínar, ef nokkrar væru, eða þá safna skuldum. Hjer er um tilraun að ræða til sjálfshjálpar þeirra til að koma upp húsum, sem áætlað er, að kosti 167 þús. kr. nú. Þegar styrkurinn er dreginn frá, eru eftir 140 þús.; af því ætti að mega fá 70 þús. gegn 1. veðrjetti, en þá er ætlast til, að stjórninni sje heimilt að veita 70 þús. krónur gegn 2. veðrjetti, þó svo, að það, sem hvílir á 1. og 2. veðrjetti, auk styrksins, fari ekki fram úr virðingarverði samkvæmt fasteignamati. Jeg vona nú, að hv. þm. sjeu svo víðsýnir, að þeir samþykki brtt. þessar. Þetta er fyrst og fremst góður styrkur fyrir hlutaðeigandi menn og í öðru lagi tilraun, hvort ekki sje hægt að koma upp ódýrari húsum. Þetta er auk þess ekki svo stórvægileg upphæð fyrir ríkissjóðinn, að ekki sje vert að reyna.