03.05.1923
Efri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

1. mál, fjárlög 1924

Björn Kristjánsson:

Í ræðu háttv. 5. landsk. þm. (JJ) kom fram, að Árni Th. Pjetursson mundi hafa verið sjerlega hneigður til víns. Jeg verð að skírskota til vottorða frá foreldrum flestra barna, sem hann hefir kent, og er menn lesa þau, getur engum blandast hugur um, að hjer hefir alls ekki um verulegan drykkjumann verið að ræða, enda er augljóst, að hann hefði ekki verið kennari í ca. 30 ár, þar sem hreppsbúar rjeðu sjálfir, hver var í því embætti, ef svo hefði verið. Það eitt er nóg sönnun. Og enda þótt hann kunni að hafa skvett í sig í ferðalögum, þá var hann aldrei drukkinn heima fyrir og ekki kom fyrir, að kensla fjelli niður af þeim sökum. Vottorð bílstjórans, sem hann hefir útvegað, sannar því lítið í máli þessu, nema þá helst það, að maður þessi hefir verið lagður í einelti öðrum fremur. Jeg tel rjettast að láta sitja við það, sem hv. Nd. hefir gert í þessu atriði, enda hefir hæstv. stjórn mælt með því.