07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

1. mál, fjárlög 1924

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg tek undir með hæstv. forseta, að það er hægt að vera stuttorður um brtt. þær, er hjer liggja fyrir, eigi hvað síst um till. fjvn. þessarar háttv. deildar, sem áður hafa verið ræddar. Jeg þykist vita, að háttv. deildarmenn hafi tekið eftir brtt. háttv. Ed., og ætla jeg því ekki að tefja tímann með nákvæmri útlistun á þeim.

Eins og háttv. deildarmenn munu sjá, þá hefir aðalupphæð útgjaldaliðsins lækkað um 16680 kr. við meðferð háttv. Ed. Og þegar athugað er, hvar lækkunin kemur helst niður, þá sjest, að það er aðallega á verklegum framkvæmdum. Mismunurinn á hverri grein er sem hjer segir:

10. gr. Nd. kr. 264580}

Ed. — 263280} =lækkun kr. 1300

11. gr. Nd. — 558920}

Ed. — 557420} =lækkun kr. 1500

12. gr. Nd. — 711720}

Ed. — 705840} =hækkun kr. 5880

13. gr. Nd. — 2101760}

Ed. — 2065760} =hækkun kr. 36000

14. gr. Ed. — 1239706}

Nd. — 1229626} =hækkun kr. 10080

15. gr. Ed. — 245170}

Nd. — 236370} = hækkun kr. 8800

16. gr. Nd. — 629220}

Ed. — 625700} = hækkun kr. 3520

18. gr. Ed. — 183452}

Nd. — 182572} = hækkun kr. 880

Á 10. gr. hefir lækkunin orðið 1300 kr., sem meðal annars eru teknar af aðstoðar- og skrifstofukostnaði hagstofunnar, sem áætlað var af stjórninni 13000 kr. Fjvn. Nd. gerir sjer engar vonir um það, að sú upphæð, sem hún áætlaði, komi eigi til útborgunar, en vill hins vegar ekki fara út í neitt þref um það atriði við háttv. Ed., þar sem þetta er hvort sem er áætlunarupphæð.

Á 11. gr. hefir lækkunin orðið 1500 kr. Er hið sama um það að segja og lækkunina á 10. gr. Hjer er um áætlunarupphæð að ræða. Húsaleigukostnaður lögreglustjórans er reiknaður út eftir því, sem hann er nú, en það er eftir mati. Fjvn. gerir sjer ekki von um, að sá liður lækki jafnmikið og háttv. Ed. hefir gert ráð fyrir, og vill því færa liðinn í svipað horf og áður, þó nokkru lægra.

Háttv. Ed. hækkar 12. gr. um 5880 kr., en lækkar 13. gr. um 36000 kr. 14. og 15. gr. hækkar háttv. deild um nærfelt 20 þús. kr. til samans, en lækkar 16. gr. um 3520 kr. Er það ljóst, að lækkun háttv. deildar kemur aðallega niður á verklegum framkvæmdum, en hækkunin á öðrum liðum. Er óhætt að segja, að töluverður stefnumunur með deildunum komi fram í þessu efni. Fjvn. Nd. hefir reynt að forðast hækkun á 14. og 15. gr., en heldur viljað hlynna að þeim greinum, er til framkvæmda miða. Nú hefir nefndin leyft sjer að koma fram með nokkrar brtt. á þskj. 557, sem flestar eru áður kunnar. Ein till. nefndarinnar er bæði til hækkunar og lækkunar, um 50–60 þús. kr. til hækkunar, en 35 þús. kr. til lækkunar. Verði till. nefndarinnar samþykt, þá hækkar útgjaldaliðurinn um 28 þús. kr. Tekjuhallinn verður þá um 150 þús. kr. En þegar þess er gætt, að gert er ráð fyrir rúmum 200000 kr. gjaldamegin, sem eru skilyrðisbundnar, þá má með rjettu segja, að þingið skilji við fjárlögin með 50 þús. kr. tekjuafgangi, og má það teljast viðunanlegt eftir atvikum.

Þá vildi jeg minnast nokkrum orðum á aðra brtt. nefndarinnar, sem sje þá, að aðstoðarlæknirinn á Ísafirði njóti sömu launa og gert var ráð fyrir áður hjer í háttv. deild. Nefndin sá eigi ástæðu til þess að grípa sjerstaklega niður til sparnaðar á þessum eina manni. Þessi laun hans eru búin að standa í fjárlögum síðan 1919 og hafa verið skoðuð sem samningsatriði við hann. Þessi upphæð er þannig tilkomin, að læknirinn hafði 800 kr. samkvæmt lögum, en þegar launalögin komu til sögunnar og hjeraðslæknalaunin voru hækkuð um helming, eða að meðaltali sem því svaraði, þá þótti og rjett að hækka laun þessa læknis hlutfallslega. Stofnþóknun hans var þá ætluð kr. 1500, og af þeirri upphæð átti síðan að reikna dýrtíðarbætur. En þá var gert ráð fyrir, að hækkunin væri bundin við þennan mann og embætti þetta legðist niður með honum.

Þá kem jeg að 3. brtt., um að fella niður styrkinn til Guðrúnar Gísladóttur Björns, hjúkrunarkonu. Hefir nefndin viljað fara að vilja háttv. Ed. um það að fella niður styrk til hjúkrunarkvenna, en eigi sjeð ástæðu til að taka þennan styrkbeiðanda einan út úr. Því leggur nefndin til, að liðurinn falli niður.

Um 4. brtt., um viðbótarstyrk til Breiðafjarðarbátsins, skal jeg eigi fjölyrða Hefi jeg skýrt frá því áður, að nefndin hefir gert ráð fyrir 16 þús. kr. í alt til hans, þar af 10 þús. kr. í fjáraukalögum. En þrátt fyrir þetta, hefir hún ekki sjeð ástæðu til að hækka aðalupphæðina til flóabátanna.

Um 5. og 6. brtt. skal jeg ekki fjölyrða. Um þær hefir verið rætt áður. Nefndin hefir eigi sjeð ástæðu til annars en að láta þær framkvæmdir, sem þar ræðir um, fylgjast með öðrum af sama tægi. Nefndin vill lækka uppbótarupphæð til starfsmanna landssímans, og gerir þá ráð fyrir að uppbótina fái aðeins talsímakonurnar við bæjarsímann í Reykjavík, 200 kr. hver, auk dýrtíðaruppbótar, og Steindór Björnsson efnisvörður, vegna sjerstakra ástæðna, 200 kr. með hverju barna sinna.

Skrifstofukostnað vitamálastjóra hefir nefndin viljað færa til þess, er áður var, enda hefir hann skýrt nefndinni frá því, að hann megi ekki minni vera.

Nefndin leggur til, að niður falli fjárveiting til girðingar um kennaraskólann. Getur hún vel fallist á það, að æskilegt væri að girða umhverfis skólann, en álítur hins vegar, að ýmislegt fleira sje eins nauðsynlegt að komist í framkvæmd. Hefir þetta mál verið áður til meðferðar í háttv. deild, og var nefndin á móti því þá engu síður en nú.

10. brtt. er áður þekt; hefir af vangá aftur verið prentað „rafveita“ í stað „rafmagnsveita“, en það má vitanlega laga á skrifstofunni.

Þá er það 11. brtt. nefndarinnar, þar sem hún hefir lækkað byggingarstyrkinn til barnaskóla utan kaupstaða um 5 þús. kr. Þó að nefndin hafi eigi breytt skoðun sinni á máli þessu og telji eigi rjett að veita fje í þessu skyni, þá hefir hún eigi sjeð sjer fært að fara í kapp við háttv. Ed. út af þessu. Álítur nefndin eigi rjett að ganga lengra en að veita fje til þess að gera við þau skólahús, sem nú eru til, og auk þess hefir nefndin sett þá athugasemd aftan við greinina, að fjeð verði því aðeins greitt, að útlit sje fyrir, að tekjur ríkissjóðs hrökkvi fyrir gjöldum. Háttv. Ed. setti þessa athugasemd um byggingu sjúkrahúss á Ísafirði. Þótti nefndinni þessi atriði nokkuð hliðstæð, og vildi því láta jafnt yfir þau bæði ganga. Nú hefir háttv. þm. Ísaf. (JAJ) komið fram með till. um, að þessi athugasemd falli niður að því er snertir sjúkrahúsið á Ísafirði, og verði sú till. samþykt, þá verður athugasemd nefndarinnar um barnaskólahúsin tekin aftur.

Nefndin treystir sjer eigi til að mæla með því, að hækkuð sje fjárupphæðin til að semja og gefa út alþýðukenslubækur, og skal jeg í því efni láta mjer nægja að vísa til þess, sem jeg hefi áður sagt um það mál.

Háttv. fjvn. Ed. hefir hækkað tillagið til Þjóðvinafjelagsins um 5000 kr. En fjvn. þessarar háttv. deildar lítur svo á, að fjelaginu sje mjög mikil bót að því að hafa 5000 kr. til þess að spila úr, og sjer eigi ástæðu til þess að hækka upphæðina upp í 10 þús. kr. Hún leggur því til, að upphæðin sje færð í sama horf og áður.

15. brtt. er gamall kunningi, og þarf eigi að tala um hana.

16. brtt., um að lækka Guðm. Bárðarson um 500 kr., miðaði nefndin við það, hann hefir hæst haft 1800 kr. hjá Alþingi, og áleit nefndin því eigi ósanngjarnt, að hann hefði 300 krónum lægri styrk nú en áður. Fanst henni eigi ástæða til að veita þessum manni hærri ferðastyrk en t. d. dr. Helga Jónssyni.

Meiri hluti nefndarinnar sá sjer ekki fært að hækka styrkinn til dr. Helga Pjeturss.

Þá koma 2 nýir liðir, sem háttv. Ed. hefir sett inn, en það er styrkur til þeirra Jóns Þorsteinssonar og Markúsar Kristjánssonar. Fjvn. hefir lagt til, að liðir þessir væru feldir niður, og býst jeg við, að það hafi eigi komið hv. deildarmönnum á óvart. Því hefir verið lýst yfir, að stefna nefndarinnar er sú, að veita eigi námsstyrki, heldur lánsheimildir til náms, og því sá nefndin sjer eigi fært að taka einstaka menn út úr og brjóta með því regluna. Er það eigi af því, að nefndin sje á móti mönnum þessum, að hún leggur til, að liðirnir sjeu feldir niður; hún hefir þvert á móti ástæðu til að ætla, að þeir sjeu mjög efnilegir menn í sinni grein. En nefndin hefir einu sinni tekið þessa stefnu og getur eigi breytt henni, nema með því að taka þá alla slíka styrkbeiðendur til greina.

Um 20. brtt. þarf jeg eigi að tala.

Um 21. brtt., um Búnaðarfjelagsstyrkinn, skal jeg taka það fram, að nefndin sá, að það var tilgangslaust og jafnvel rangt að hafa athugasemdina aftan við liðinn eftir samþykt jarðræktarlaganna.

Háttv. Ed. hækkaði tillagið til bóndans í Fornahvammi um 300 kr. En fjvn. þessarar háttv. deildar sá eigi ástæðu til, að hann fengi hærri styrk en þeir fá hæstan, er líkt stendur á fyrir.

23. brtt. er áður þekt. Það er endurveiting, og nefndin væntir þess, að hv. deildarmenn sjeu á sömu skoðun nú og áður í því efni.

Hvað 24. brtt. snertir, um styrkinn til Sláturfjelags Suðurlands til sútunarhúss, er þess að geta, að nefndin heldur fast við það, sem áður var gert í því máli. enda getur það eigi komið í bága við hv. Ed. Eins og háttv. deildarmönnum mun kunnugt, þá var borin fram í þeirri háttv. deild till. um að fella niður styrkinn, og var hún samþykt, en svo tekin upp aftur till. nokkru lægri, af því að eigi var hægt að taka upp sömu till. aftur. Var sú till. samþykt, og bendir það á, að háttv. Ed. hafi snúist hugur í málinu.

(ein umr. í Nd.).

Meiri hl. fjvn. leggur það til, að feldur verði niður liðurinn um styrk til Sigurðar Magnússonar, af sömu ástæðu og nefndin tók fram hjer áður um hækkun eftirlauna Sigvalda S. Kaldalóns. Treystir hún sjer ekki til að mæla með hærri eftirlaunum.

26. brtt. hefir verið rædd áður.

Um það, sem eftir er af brtt., get jeg verið mjög stuttorður. Háttv. Ed. hafði byrjað á því að fella niður allar lánveitingar. er gert var ráð fyrir. En fjvn. þessarar deildar áleit enga hættu, þó að heimildir til lánveitinga væru gefnar, ekki síst úr því farið var inn á þá braut, og skal jeg þá geta þess, að háttv. Ed. hefir horfið frá stefnu sinni og komist inn á lánsheimildarbrautina aftur.

Þá vildi jeg minnast nokkrum orðum á brtt. á þskj. 578. Nefndinni er kunnur læknir sá, er í vetur ætlaði að leggja þetta fyrir sig, og taldi því rjett að binda styrkinn við hann. Telur hún óhætt að veita honum þetta fje, því að hún er sannfærð um, að það muni að gagni koma.

Þá kem jeg að brtt. um 1000 kr. hækkun á upphæðinni til afritunar skjala. Svo er málinu varið, að fengið hefir verið að láni frá Kaupmannahöfn mikið af skjölum fyrir Pál Eggert Ólason prófessor, til notkunar við sögurannsóknir hans. Hann hefir nú notað þessi skjöl, og ætti því að rjettu lagi að skila þeim strax. En þar sem skjöl þessi eru mjög merkileg, er álitið nauðsynlegt að afrita þau, því að það má búast við því, að þau verði ekki lánuð hingað aftur, því að hlutaðeigendur vilja vitanlega eigi leggja þau í meiri hættu en nauðsynlegt er. Nú er búið að panta skjöl til afritunar, fullkomlega fyrir þessum styrk, og því verður að bæta við hann, ef skjöl þessi eiga að afritast.

Þá er brtt. nefndarinnar undir lið XII á þskj. 578. Stendur þar 600 kr. „uppbót“ til Einars Sæmundsens skógarvarðar, en á að vera „húsaleiguuppbót“. Skógarverðirnir á Völlum og Hallomsstað hafa ókeypis bústað auk launa sinna, en þessi skógarvörður, sem hefir mjög stórt umdæmi, hefir aðeins hina lögákveðnu þóknun fyrir starfa sinn, og verður því sjálfur að kosta dýrt húsnæði. Nefndinni fanst þetta ósamræmi, sem bæta yrði úr að einhverju leyti, og hefir því lagt til, að þessum skógarverði væru greiddar 50 kr. á mánuði í húsaleiguuppbót. Vitanlega verður hann ekki eins vel settur og hinir skógarverðirnir, þó að brtt. þessi verði samþykt, en hún veitir honum nokkra úrlausn.

Þá eru ekki fleiri brtt. frá fjvn., en um leið vil jeg minnast á nokkrar brtt. frá einstökum þm.

Jeg gat um, að nefndin væri meðmælt III. brtt. á þskj. 578, en næstu brtt. á sama þskj. getur nefndin ekki fallist á. Treystir hún sjer ekki til að mæla með hærri styrk til sjúkrahúsbygginga að þessu sinni en gert var til sjúkrahússins á Ísafirði, sem var ekki nærri því eins hár og þurfti, en nefndin fór þar svo langt, sem hún sá sjer fært.

Nefndin hefir enn ekki heyrt ástæður hv. þm. Mýra. (PÞ) fyrir brtt. hans um hækkun á styrk til bátaferða, og getur því ekki að svo stöddu lýst afstöðu sinni til hennar.

Af því, sem jeg hefi áður sagt, leiðir afstaða nefndarinnar til brtt. hv. 1. þm. Reykv. (JakM) á þessu sama þskj.

Meiri hl. nefndarinnar er meðmæltur brtt. hv. 4. þm. Reykv. (MJ) til handritakaupa (handrit Jóns Aðils), en heldur uppteknum hætti, að vera á móti styrk til ábúandans í Grísartungu. Sömuleiðis er nefndin á móti brtt. þeirra háttv. 1. þm. N.-M. (ÞorstJ) og háttv. þm. N.-Ísf. (SSt) til verðlauna fyrir ritgerð um útrýming refa. Telur hún ekki tryggilega um búið, þar sem gert er ráð fyrir, að verðlaunin sjeu greidd þegar er ritgerðin sje afhent stjórn Búnaðarfjelagsins, án þess að víst sje, að ritgerðin sje nokkurra verðlauna verð.

Sama gildir um brtt. hv. þm. Dala (BJ) í þessu máli.

Um brtt. hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) hefir nefndin óbundnar hendur, en aftur á móti er hún mótfallin brtt. hæstv. atvrh. (KIJ) um að halda áfram styrkveitingu til Þorvalds Árnasonar. Finst nefndinni, að þingið sje búið vel að gera í garð þessa manns, að veita honum 3000 kr. námsstyrk, og þrátt fyrir það, hversu nauðsynlegt það kann að vera, að hann haldi áfram þessu námi, telur hún ekki ósanngjarnt, að hann bjargi sjer með lánum hjer eftir, eins og aðrir námsmenn verða að gera.

Um brtt. á þskj. 582 get jeg ekki sagt neitt fyrir hönd nefndarinnar, þar eð þær hafa ekki komið fram fyr en hjer á fundinum. Hefir nefndin því óbundin atkv. um þær.