07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (834)

1. mál, fjárlög 1924

Forsætisráðherra (SE):

Að því er snertir 1. brtt. hv. fjvn. á þskj. 557, skal jeg taka það fram, sem jeg hefi reyndar áður tekið fram í hv. Ed., að jeg verð að líta svo á, að þó að 5000 kr. upphæðin verði samþykt, mun stjórnin ekki telja það bindandi fyrir sig, nema því aðeins, að hæfilegt húsnæði fengist fyrir þá leigu.

Mjer þykir leitt, að nefndin hefir lagt á móti fjárveitingu til að girða fyrir lóð kennaraskólans. Er hin mesta nauðsyn á þessu verki og hefir skólastjórinn margoft farið fram á fjárveitingu í þessu skyni, en stjórnina hefir brostið fjárlagaheimild til að veita hana.

Mjer þykir leitt, að nefndin hefir með 11. brtt. sinni á þskj. 557 lækkað styrkinn til barnaskólahúsa utan kaupstaða og breytt þar orðalaginu. En það þýðir víst ekki að deila við dómarann. Till. nefndarinnar í þessu efni eru bygðar á skoðunum, gerólíkum mínum. Verst er þó, að nefndin hefir hnýtt aftan við þennan lið, að styrkurinn skuli því aðeins greiddur, að tekjur hrökkvi fyrir gjöldum. Hefði jeg kosið, að þessi fjárveiting væri ekki bundin neinu skilyrði.

Þá hefir nefndin nafnbundið styrkinn til augnlækninganámsins. Jeg flutti í háttv. Ed. brtt. um þennan styrk, og var ástæðan sú, að svo má ekki lengur standa, að aðeins sje hjer á landi einn augnlæknir. Liggja þau vandræði í augum uppi, sem af því geta hlotist, að enginn augnlæknir sje hjer í Reykjavík meðan þessi eini maður er í hinni árlegu hringferð umhverfis landið og eins ef hann yrði veikur. Þessar voru ástæðurnar fyrir till. minni og var mjer kunnugt um fleiri en einn lækni, sem höfðu hug á þessu framhaldsnámi. Jeg er þó alls ekki mótfallinn því, að styrkurinn sje bundinn við nafn, ekki síst það nafn, sem háttv. fjvn. leggur til. Sá læknir hefir áður sýnt sjerstakan áhuga og dugnað, og er því vel farið, að hann njóti styrksins.