10.03.1923
Neðri deild: 17. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

54. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Öllum, sem hlutdrægnislaust líta á þetta mál, hlýtur að vera það fullljóst, að það sje bænum hin mesta nauðsyn, að mál þetta nái fram að ganga. En oft hefir sú orðið raunin á, að þingið sje ófúst á að leggja jarðir undir kaupstaði án samþyktar viðeigandi hrepps- og sýslunefnda. Jeg geri því ráð fyrir, að þingið muni kveinka sjer við að leggja þessar jarðir undir bæinn, þrátt fyrir nauðsynina, ofan í skýlaus mótmæli hreppsnefndanna, sem fram hafa komið. Um þetta er mjer kunnugt, því það stendur svo á, að jeg hafði fyrir eitthvað 30 árum svipað mál til meðferðar hjer í þinginu. Þá hafði Akureyrarbær keypt jörð í Hrafnagilshreppi, sem bænum var nauðsynlegt að ná undir sitt lögsagnarumdæmi, en hreppsnefnd Hrafnagilshrepps var því mjög öndverð. Mjer var það því fullljóst, að til þess, að frv. kæmist í gegn, yrði bærinn talsvert á sig að leggja og ganga mjög langt til samkomulags, því án þess samkomulags vissi jeg, að ekki þýddi að bera fram frv., og því samkomulagi náði jeg með sjerstökum hlunnindum, er hreppurinn fjekk í staðinn. Jeg býst því við, að Reykjavíkurbær þurfi að leggja eitthvað meira í sölurnar fyrir þetta mál en það, sem frv. getur um Vil jeg skjóta því inn í, hvort bæjarstjórnin sjái sjer nú ekki fært að leita hófanna hjá hreppsnefndum þessara hreppa og gera þeim svo góð boð, að þeir megi við una. Málið mun hvort sem er vera svo þýðingarmikið fyrir bæinn, að hann sje þess vel umkominn að leggja talsvert í sölurnar fyrir það.