05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

54. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Einar Þorgilsson:

Þegar þetta mál var hjer til 1. umr., mælti jeg á móti því, af því að jeg áleit það svo óundirbúið, þar sem vantaði samþykki bæði Seltjamarneshrepps og Mosfellshrepps. Nú hefir háttv. allshn. leitað samkomulags á milli hlutaðeigenda; og samkvæmt nefndaráliti á þskj. 283 sýnist það hafa náðst við Seltjarnarneshrepp, en ekki við Mosfellshrepp að því leyti, að bæjarstjórn Reykjavíkur hefir enn ekki samþykt tilboð hreppsnefndar Mosfellshrepps. Ef til vill hefði verið óhætt að samþykkja frv., þó það vantaði; en mjer hefði þótt betur við eiga, að samþykki bæjarstjórnar Reykjavíkur væri komið, þar sem málið er búið að liggja svo lengi fyrir þinginu. En sjerstaklega vantar samþykki sýslunefndar Kjósarsýslu, sem áskilið er í gildandi lögum, en þvert á móti liggur fyrir þinginu nú erindi frá henni, þar sem hún á nýafstöðnum sýslufundi neitar að ljá samþykki sitt til, að sú breyting verði gerð, sem hjer um ræðir. Að sjálfsögðu saknar sýslan tekna, ef sú breyting kemst á, því ekki er gert ráð fyrir því, að hún njóti neins beinlínis af því fje, sem Reykjavíkurbær greiðir viðkomandi hreppum samkvæmt því, sem tilboðin eru orðuð, og má ætla, að ágreiningur geti síðar orðið um það, hvort og hve mikið henni beri af því. Þess vegna er jeg á móti málinu, enda er það nóg ástæða fyrir mig, að sýslunefnd Kjósarsýslu mótmælir því. Jeg mun því greiða atkvæði á móti frv.