12.04.1923
Efri deild: 38. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

135. mál, læknisskoðun aðkomuskipa

Frsm. (Guðmundur Guðfinnsson):

Þetta frv. flytur allsherjarnefnd eftir tilmælum bæjarlæknisins eða sóttvarnarlæknisins í Reykjavík, og er það breyting á 1. og 24. gr. sóttvarnarlaga frá 1902, í þeim lögum er ekki gert að skyldu að skoða skip, sem koma frá útlöndum, en nú er það komið í hefð, síðan inflúensan geisaði hjer. Það hefir haldist síðan. En margar slíkar pestir geta borið að höndum þá og þegar, þótt inflúensan sje hjá liðin. Þess vegna er ekki fjarri sanni, að rjett sje að lögfesta þetta, án þess þó að gera samgöngum og siglingum erfiðara fyrir. Frv. ber heldur ekki slíkt með sjer, en aðeins tryggingu fyrir því, að læknar skoði öll þau skip, er kynnu að geta haft með sjer smitandi sjúkdóm, og að heilbrigðisstjórn geri allar nauðsynlegar ráðstafanir til að hindra, að slíkar pestir nái landfestu. Síðan er það annað atriði, og það er taxtinn, sem er í sóttvarnarlögunum fastákveðinn 4, 8 og upp í 10 kr., eftir stærð skipanna. Það var að vísu sæmilegt í þá daga, en nú er alt hækkað, og þykir því nefndinni þetta ljeleg borgun fyrir eftirlitið. Nefndinni fanst alveg sjálfsagt að hækka taxtann og kom sjer saman um að hækka gjaldið um helming, sem sje upp í 8, 16 og 20 kr. Yfirleitt eru sóttvarnarlögin orðin svo gömul og úrelt í ýmsum greinum, að þau þörfnuðust nákvæmrar endurskoðunar. — Nefndin hafði hvorki tíma nje tæki til að athuga málið sem skyldi, en hún beinir þeirri ósk til stjórnarinnar, að hún athugi það til næsta þings. Vona jeg, að hv. þm. samþykki svo frv. til 2. umr.