20.04.1923
Neðri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

135. mál, læknisskoðun aðkomuskipa

Magnús Pjetursson:

Jeg sje, að hæstv. forsrh. (SE) er ekki viðstaddur, annars hefði hann að líkindum látið nokkur orð fylgja þessu frv., sem borið var fram í hv. Ed. að nokkru leyti eftir tilmælum heilbrigðisstjórnarinnar. Aðaltilgangur frv. er að lögbjóða fyrirkomulag, sem um nokkur ár hefir tíðkast um læknisskoðun aðkomuskipa. Þetta fyrirkomulag hefir ekki átt neina stoð í lögum, og ef skip hefðu einhvern tíma kvartað undan því eða neitað að greiða þann kostnað, sem af því leiðir, hefði það opinbera orðið að láta í minni pokann. En til þess hefir aldrei komið, svo sjálfsagt hefir þetta þótt, og nú þykir rjett að ákveða þetta með lögum. Annars fylgdi rækileg greinargerð þessu frv. í hv. Ed., og býst jeg við, að hv. deildarmenn hafi kynt sjer hana.

Jeg vildi mælast til, að frv. yrði ekki vísað til nefndar, því að með hverjum degi verður meiri þörf á lögum um þetta efni. Hygg jeg, að frv. mætti fara nefndarlaust, að minsta kosti til 2. umr., en þá mætti vísa því í nefnd, ef þess þætti þurfa.