03.03.1923
Neðri deild: 11. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

44. mál, vélgæsla á íslenskum mótorskipum

Flm. (Magnús Kristjánsson):

Mál þetta kom fyrir þingið 1920 og fjekk þá góðar undirtektir, og var af öllum viðurkent, að nauðsyn bæri til að afgreiða það sem fyrst, vegna þess, að það stendur í svo nánu sambandi við mótorvjelstjóraskólann, sem þá var nýstofnaður með lögum. En þrátt fyrir það, þótt undirtektir væru þær, sem að framan greinir, vildi þó svo undarlega til, að vegna einhvers misskilnings var málið felt í Ed. á síðustu stundu. En með því, að nú má telja víst, að þessi misskilningur eigi sjer ekki lengur stað, þótti mjer rjett að bera málið fram af nýju. Jeg tel því fullar líkur til, að málið eigi betri viðtökum að fagna í hv. Ed. nú. Jeg geri ráð fyrir, að slík ábyrgðarstörf sjeu varla í nokkru siðuðu landi undanþegin lögskipuðu eftirliti, eins og hjer Það þýðir ekki að halda langa ræðu um þetta mál, þó að hjer sje um brýna nauðsyn að ræða. Aðalákvæði frv. eru mikilsverður þáttur í þeirri starfsemi að tryggja líf sjómanna, sem stunda áhættumesta atvinnuveg þessa lands.

Frumvarp þetta hefir verið borið undir álit sjerfræðinga í þessari grein, og álíta þeir ekkert við það að athuga. Jeg tel svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. en legg til, að frv. verði vísað til 2, umr. og sjávarútvegsnefndar.