14.03.1923
Neðri deild: 20. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1195 í B-deild Alþingistíðinda. (954)

44. mál, vélgæsla á íslenskum mótorskipum

Jón Baldvinsson:

Brtt. þær, sem jeg hefi borið hjer fram. er að finna á þskj. 117. Ef frv. þetta yrði samþykt óbreytt eins og það liggur fyrir deildinni, þá gerði það mörgum þeim mönnum, sem stunda atvinnu á vjelbátum, óþægindi, þannig að það varnar þeim að hækka stig af stigi og taka skip með stærri vjelum. þegar frv. væri orðið að lögum. Það er auðvitað nauðsynlegt, að trygging sje fyrir, að þeir, sem með vjelarnar fara, hafi næga þekkingu og reynslu í þeim efnum. Fyrst eftir að mótorskipin komu til, var þess ekki gætt. hversu vandfarið er með vjelarnar, og þekkingarleysi vjelamanna hefir oft orsakað slys og mikið fjártjón Nú er ljóst orðið, að fara þarf vel með vjelarnar til þess að forðast slíkt. Og jeg hygg því, að skipaeigendur muni sjá sinn hag í því að velja þá menn til vjelgæslu, sem næg reynsla er fengin fyrir, að kunnáttu hafi í þessum efnum.

Brtt. mínar eru gerðar í samráði við fjelag vjelamanna í Reykjavík og miða að því, að þeir, sem starfa að vjelgæslu, geti hækkað stig af stigi, þó þeir eigi hafi vjelstjórapróf. Er þetta að nokkru hliðstætt því, sem gert var á síðasta þingi, þegar rýmkun var gerð á lögunum um atvinnu við siglingar. En sú rýmkun var í því fólgin að gera gömlum formönnum auðveldara að taka að sjer skipstjórn á stærri bátum en áður var leyft.

Vildi jeg nú, að takmörkin í þessu frv. væru sett rúm í byrjun, vegna þess að tel það nauðsynlegt á meðan vjelgæsluskólinn er ekki stofnaður; og er því ankannalegt, ef ætti að binda menn við próf frá skóla, sem ekki er til enn þá, og því heldur, sem námsskeið Fiskifjelagsins hafa ekki starfað um skeið. Að minsta kosti er það útilokað samkvæmt 4. gr. þessa frv., að menn geti tekið að sjer vjelgæslu í skipum, sem hafa stærri vjelar en 150 hestafla. nema próf sje fyrir hendi. Menn hafa haft það á móti brtt. minni við 5 gr., að mönnum án vjelstjóraprófs væri leyft að fara með svo stórar vjelar, að skip með þeim fari landa á milli, og á þeim skipum verði menn að hafa vjelstjórapróf. En jeg fer fram á í till. minni, að 30 mánaða vinna við slíkar vjelar sje jafngild prófi, því vart munu menn settir til vjelgæslu á skipuni með 150 hestafla vjelum eða stærri. nema trygging sje álitin fyrir því, að þeir hafi hæfilega kunnáttu til starfans, þótt þeir sjeu próflausir. Þetta kæmi því ekki að sök.

Sem sagt, þeir menn, sem nú stunda vjelgæslu, ættu að fá að halda áfram að hækka stig af stigi; þeir munu starfa hvort sem er, og verða því að njóta þessara rjettinda. Vænti jeg svo, að hv. deild taki þessum till. mínum vel.