22.02.1923
Neðri deild: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús Guðmundsson:

.Jeg saknaði þess úr ræðu hæstv. fjrh. (MagnJ), að hann skyldi ekki gefa neina áætlun um áhrif þessara breytinga á árinu 1923, því að varhugavert er að samþykkja ákvæði um slíka tekjuminkun, sem hjer er um að ræða, þar sem búið er að samþykkja fjárlög fyrir yfirstandandi ár. Jeg vil því leyfa mjer að gera þá fyrirspurn til hæstv. ráðherra, hvort hann hafi ekki gert sjer þess grein, með sjálfum sjer að minsta kosti, hver áhrif á tekjuskattinn í heild sinni þessi ráðgerða breyting mundi hafa.

Eitt atriði, sem jeg tel hæpið, vildi jeg líka minnast á í þessu sambandi, og það er, hvort ætlast sje til þess, að útsendir konsúlar verði skattskyldir hjer, eins og helst virðist liggja í frv., en það getur tæplega samrýmst alþjóðarjetti.