24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

1. mál, fjárlög 1925

Atvinnumálaráðherra (MG):

Aðeins fáein orð. viðvíkjandi aths. háttv. 2. þm Rang. (KlJ) um laun símafólksins.

Það var nákvæmlega reiknað út hjá nefndinni, að ekki mætti áætla minna til launa en hún hefir gert. Það verður að taka tillit til aukningar símakerfisins bæði hjer í bænum og annarsstaðar. Hjer í Reykjavík hefir talsímanotendum fjölgað, nýtt stöðvarborð sett og stúlkum fjölgað við afgreiðslu. Annars fanst mjer hv. 2. þm. Rang. ekki gera mikinn ágreining út af till. nefndarinnar við 13. gr., um hækkun til símanna. Jeg er sannfærður um, að þótt allrar sparsemi verði gætt, mun fjárveitingin ekki nægja fyrir gjöldunum árið 1925.

Viðvíkjandi því, sem háttv. þm. Mýra. (PÞ) sagði um sýsluvegina, tek jeg fram, af því hann efaðist um, að jeg mundi vera á móti till., að jeg skýrði frá því í dag, að jeg teldi vera ósamræmi í því að auka framlag til sýsluvega, þegar ekkert er lagt til þeirra vega, sem landssjóður á að kosta að öllu leyti. En jeg fjölyrði ekki frekar um þetta; hv. frsm. fjvn. hefir skýrt frá afstöðu nefndarinnar til þessa máls.