24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

1. mál, fjárlög 1925

Jakob Möller:

Það fer hvort sem er ekki hjá því, að hv. frsm. (ÞórJ) þurfi að taka til máls aftur, og mega hv. deildarmenn því ekki áfellast mig mikið fyrir að bæta dálitlu við það, sem hann þarf að svara, þó að mjög sje nú áliðið kvölds.

Hv. frsm. hafði það á móti brtt. minni á þskj. 196,X, fyrra lið, að reynslan hafi sýnt, að slíkir styrkir væru mjög eftirsóttir, og væri því hættulegt að fara inn á þessa braut. Mjer skildist á honum, að þessi reynsla væri frá fornu fari, en ekki af því, að einum manni hafi verið veittur svipaður styrkur í fyrra, þar sem háttv. frsm. ljet þess getið, að nú um hríð hefði verið hlje á eftirsókninni. Jeg veit ekki til, að slíkir styrkir hafi verið veittir áður. Það er kunnugt, að berklavarnalögin eru ekki gömul, frá 1921, en styrkurinn, sem veittur var í fyrra, og þessi, sem hjer er farið fram á að veita, eru einmitt rjettlættir með þeim lögum. Þessir sjúklingar eru sem sje á opinberu framfæri hvort sem er, en jeg veit ekki nema þeir styrkir sjeu annars eðlis, sem háttv. frsm. á við. Öðru þarf jeg ekki að bæta við það, sem jeg sagði áður um þetta atriði.

Um síðara lið sömu brtt. játaði háttv. frsm. beinum orðum, að það væri hagur að því að veita þeim sjúklingi þessa upphæð, í samanburði við það að sjá honum fyrir sjúkrahúsvist eins og áður. En hann kvað stórt atriði vanta, sem sje læknisvottorð um það, að sjúklingurinn þyrfti að vera í sjúkrahúsi. Jeg tel nægja að vísa til þeirra skjala um þennan sjúkling, sem lágu fyrir þinginu í fyrra og þingið fjelst þá á, og þeirra ummæla hv. frsm., er hann viðurkendi beinan sparnað að þessu. En þyki mönnum læknisvottorð nauðsynlegt, er auðvelt að bæta úr þessu með því að setja athugasemd við liðinn, að styrkurinn sje því aðeins greiddur, að vottorð sje lagt fram.

Um uppbótina til talsímakvenna sagði hv. frsm., að fjvn. hefði ekki getað sannfærst um, að rjettmætt væri að bæta þannig kjör þessara starfsmanna ríkisins í samanburði við aðra. Þetta er ljeleg afsökun og lítilsverð, hafi hv. nefnd annars tekið afstöðu til þessa máls. Það er lítil fyrirhöfn að komast að raun um það, og þarf ekki annað en að fletta upp í launalögunum, að þetta er mjög sanngjarnt. Jeg tel það sterka sönnun fyrir því, að þetta sje rjettmætt, að síðasta þing samþykti samskonar uppbót í fjáraukalögum fyrir 1923 og fjárlögum 1924. Nú er aðeins eitt ár eftir þangað til launalögin verða endurskoðuð, og finst mjer sem sterkar ástæður þurfi að liggja til þess að mæla á móti því, að uppbót þessi verði veitt fyrir það eina ár, eins og 2 árin á undan. En hver maður getur sannfært sig um það, að launakjör þessara starfsmanna eru svo langt fyrir neðan laun annara, að ekki þurfa menn að óttast, að aðrir muni telja sig misrjetti beitta, þó að þessi lítilfjörlega uppbót verði samþykt.

Þar sem jeg er einn flm. brtt. um aukið framlag til strandvarna, vil jeg víkja nokkrum orðum að ræðu hv. þm. V.-Sk. (JK). Þó að hann tæki fram, að hann vildi ekki mæla á móti tillögunni, fjellu ummæli hans á þann veg, að þau mátti skilja sem hálfvegis mótmæli, þar sem hann hjelt því fram, að rjett væri að mælast til aukinnar strandgæslu af hálfu Dana. Jeg vil benda hv. þm. á, að þótt sú aukning fengist, væri hún allsendis ónóg, og það jafnvel hversu mikið sem Danir ykju við varnirnar. Það kemur til af þeirri ástæðu, hvernig þeir haga landhelgigæslunni. Þeir haga henni öðruvísi en þarf að stunda hana, hugsa mest um að sekta skip í hrotum, en síður um hitt, að verjast stöðugum ágangi togaranna. Það vita allir, Skaftfellingar ekki síður en aðrir, að skip Dana liggja mestan tímann á höfnum inni, án þess að líta eftir, hverju fram fer á fiskimiðunum. En ef koma á í veg fyrir það tjón, sem smábátar verða nú fyrir af ágangi togaranna, er þessháttar landhelgisgæsla alveg gagnslaus, því að þá þarf gæsluskipið að vera að staðaldri á þeim slóðum, sem brotin eru oftast framin á. Besta sönnunin fyrir þessu er saga „Þórs“ við Vestmannaeyjar og fyrir norðan land. Þó að danskt landvarnarskip hafi verið fyrir norðan síðastliðið sumar, er það vitanlegt, að það lá að staðaldri inni á höfnum, en „Þór“ var fyrir utan og gerði það, sem. gert var, til þess að verja landhelgina. Og sömu söguna má segja fyrir sunnan land.