24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

1. mál, fjárlög 1925

Hákon Kristófersson:

Jeg hafði ekki ætlað mjer að taka til máls aftur, en vegna ýmsra ummæla háttv. 2. þm. Árn. (JörB) um hið margumrædda Geysishús get jeg ekki hjá því komist. Þó skal jeg strax geta þess, í sambandi við ummæli hv. þm. um vegamálastjóra, að mjer kemur það mjög á óvart, ef eitthvað er athugunarvert við rekstur þess embættis og þar sje ekki gætt alls hófs. Jeg hefi þekt þennan embættismann um langa hríð og veit, að hann hefir jafnan viljað spara og það svo, að mjer hefir þótt fullmikil sparsemi, en hefi þó virt hann fyrir þá sem aðra framkomu hans. Nú segir hv. þm., að hann láti smiðju ríkisins standa auða, en komi verkfærum fyrir til viðgerðar í annari smiðju, sem sje miklu dýrari. Jeg býst við, að hjer sje um einhvern misskilning að ræða, enda mun hv. 2. þm. Rang. (KlJ) geta skýrt frá því manna best, hvort vegamálastjóri sje ásökunarverður og ámælis fyrir embættisfærslu sína. Annars verð jeg að telja það miður vel viðeigandi að ráðast á fjarstadda heiðursmenn.

Þá hjelt hv. 2. þm. Árn. (JörB) því fram, að þeir, sem greiddu atkvæði gegn till. hans um fjárveitingu til sjúkraskýlisins í Grímsnesi, væru að refsa hjeraðinu með því. Jeg get ekki sjeð, hvað hv. þm. kemur til að slá fram þessari ásökun. Jeg segi fyrir mig, að jeg hefi enga tilhneigingu til að refsa þeim heiðursmönnum.

Hv. þm. gat þess, að maður nokkur hafi keypt innanstokksmunina úr Geysishúsinu og selt aftur sjúkraskýlinu. Þetta er rjett, en eftir því sem sagt er, keypti maðurinn í þeim hug að selja aftur sjúkraskýlinu þá muni, er það þurfti með, og því verði, er hann keypti fyrir. En svo mun hafa verið í hóf stilt um verðið, að talsverður hagnaður hafi verið á þeim kaupum.

Þá sagði hv. þm., að efniviður hússins hafi verið metinn eftir gangverði á Eyrarbakka. Hann var svo góður að lána mjer þennan lista, sem hann nefnir mat, þó að það sje í raun rjettri ekkert mat. Það eru að vísu 2 nöfn undir listanum, en ekki getið um það, að þetta sje álit þeirra, þó að venja sje að taka það fram í matsgerðum, sem framkvæmdar eru af dómkvöddum mönnum. Annars þykir mjer matið kynlegt á margan hátt. (JörB: Vill hv. þm. ekki lesa það upp?). Það skal jeg gera með ánægju, með leyfi hæstv. forseta.

Í panel er fetið metið á 15 aura, í gólfborðum á 25 aura. Langbönd og utanveggjaborð á 25 aura fetið. Renningar í stafi og sperrur 32 aura fetið. Rammar og stafir 4X4 þuml. 38 aura fetið. Þakjárn 75 aura fetið. Gluggar 182 kr., en ekki getið um tölu þeirra. Hurðir 350 kr., en hvorki getið um tölu eða gerð, og er þó kunnugt, að hurðir eru allmisjafnar að dýrleika eftir gerð. Eldavjel 200 kr., og er mjer óhætt að staðhæfa, að það er þó langt fyrir neðan sannvirði, því að hún mun hafa kostað 600 kr. Mjer er annars ekki kunnugt um, hvar á landinu þessir hlutir hafa fengist fyrir þetta verð á þeim tíma, sem um er að ræða. (JörB: Það er leiðinlegt!). Víst er það leiðinlegt, því að jeg hefði gjarnan viljað nota mjer það verðlag, og býst jeg við, að fleiri muni taka undir það. Auk alls þessa er fimti hluti dreginn frá fyrir fyrningu. Hafði jeg hugsað, að þetta væri nægileg fyrning, en það er síður en svo, þegar litið er á verðið á efninu. Svo eru gerðar 1000 kr. fyrir töfum við smíði og sjálfsagður kostnaður við niðurrif hússins 450 kr. Jeg veit ekki, hve dýr viðarflutningur er þar eystra, en hjer eru gerðar 250 kr. fyrir því, hve flutningurinn mundi hafa orðið ódýrari frá Eyrarbakka. Með þessu móti er auðvelt að fá þá niðurstöðu, að hjeraðið hafi tapað 918 kr. á kaupunum. En þessi reikningur sannar miklu fremur mitt mál, að góður hagur hafi verið af því að kaupa húsið, og er síður en svo, að jeg sjái eftir því. En hinu hefi jeg haldið fram, að rangt hafi verið að rífa nauðsynlegt gistihús, enda gerði jeg ráð fyrir, að það hefði hvorki áhrif á drykkjuskap nje bindindi, þótt hv. 2. þm. Árn. vilji láta líta svo út.

Hv. 2. þm. Árn. gaf mjer ekki tilefni til frekari svara, og vona jeg, að hann sje nú orðinn mjer samdóma um það, að þessi reikningur sýni, að hagur hefir verið að kaupunum og að ekkert mat hefir fram farið.