24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

1. mál, fjárlög 1925

Jón Kjartansson:

Þar sem jeg eyddi annari ræðu minni í því trausti, að háttv. frsm. (ÞórJ) gæti orðið við þeim tilmælum mínum að taka brtt. um styrki til sjúkraskýla og læknisbústaða út af dagskrá til 3. umr., vænti jeg þess, að hv. deildarmenn virði mjer það til vorkunnar, þó jeg óski nú að gera stutta athugasemd.

Jeg verð að leiðrjetta hv. frsm. þar sem hann sagði, að hv. fjvn. hefði ekki getað orðið við tilmælum Mýrdalshjeraðs, þar sem málið hafi ekki verið nægilega undirbúið frá þeirra hendi. Það var viðurkent, að fje væri nægt fyrir hendi, en uppdráttinn vantaði. Uppdrátturinn var þá sendur nefndinni, en hvað var að honum! Jú, hann var eftir húsameistara ríkisins. Þá vefengdi hv. frsm., að jeg hefði sagt rjett til um rúmafjöldann, þar sem kostnaðaráætlunin gerði ráð fyrir 5 rúmum. Það er að vísu rjett, en þó má koma þar fyrir 9 rúmum, eins og jeg tók fram. Hv. fjvn., sem heldur því fram, að málaleitun Borgfirðinga hafi verið betur undirbúin, leggur til, að þeim sjeu veittar 15 þús. kr. En það er ekki tekið fram í brtt., að þetta skuli vera þriðjungur kostnaðar, heldur getur það eftir henni verið helmingur eða hvað sem vera skal. Jeg hefi spurt hv. þm. Borgf. (PO), hvað mörg rúm væri fyrirhugað að hafa í því sjúkrahúsi, og kvað hann það vera 5–10 rúm, eða sama fjölda og gert er ráð fyrir í Vík.

Jeg tel ummæli hv. frsm. um, að áætlun húsameistara sje gölluð, alls ekki makleg, og finst mjer rangt, að þau skuli hafa komið fram í háttv. deild. Ef ekkert gagn er í manninum, hvers vegna er þá verið að hafa hann fyrir starfsmann ríkisins? (TrÞ: Staðan er í launalögum). Það er að vísu satt, en hann hefir háan skrifstofukostnað í fjárlögum.

Annan galla kvað háttv. frsm. vera á þessari málaleitun, að læknirinn þar eystra væri alóhæfur til að taka við sjúkraskýli. (Frsm. ÞórJ: Það var eftir ummælum hv. þm.). En það eru einmitt meðmæli með fjárveitingunni, því að læknirinn, sem er aldraður maður, hefir lýst yfir, að hann muni láta af embætti þegar sjúkraskýlið kemur, en hinsvegar kveður landlæknir enga von um að fá nýjan lækni, nema sjúkraskýlið komi. Synjun um styrk þennan er þess vegna tvöfalt ranglæti, sem kemur niður á hjeraðsbúum. Þeir fá ekkert skýli, vegna þess að þeir hafa ekki góðan lækni.

Jeg fæ ekki tíma til að ræða um þann viðbótarstyrk, sem jeg hefi farið fram á til Síðuhjeraðs, en jeg skal þó geta þess, að þar stóð á svo sem hv. fjvn. telur heppilegast nú, að húsameistari ríkisins gerði ekki áætlunina, hann kom þar ekki nálægt, heldur annar maður, en hún stóðst ekki, og er því farið fram á fjárveitingu til viðbótar. Ástæðurnar til þess skal jeg ekki endurtaka, þar sem jeg hefi áður getið þeirra rækilega.