26.03.1924
Neðri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

60. mál, ríkisskuldabréf

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Fjárhagsnefnd hefir ekki haft tækifæri til þess að bera sig saman um brtt. hv. þm. Ak. (BL), þar sem hún kom fyrst fram í fundarbyrjun. Hafa nefndarmenn því óbundin atkvæði um þessa brtt.

Út af ummælum hæstv. atvrh. vil jeg láta þess getið, að fyrir fjárhagsnefnd vakti aðeins það, að ekki yrði ráðist í ný mannvirki utan fjárlaga, svo sem brúagerðir, húsabyggingar o. s. frv., sem stjórnin annars hefir heimild til samkv. sjerstökum lögum. En jeg býst ekki við, að nefndin hafi neitt á móti því, að lokið sje við mannvirki, sem byrjað er á og ekki koma að notum án þess að þau sjeu fullgerð. Annars vil jeg þakka góðar undirtektir ráðherrans undir till. nefndarinnar og tel svör hans fullnægjandi.