24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

1. mál, fjárlög 1925

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Þar sem hátt. 2. þm. Árn. (JörB) mintist á embættisrekstur vegamálastjóra, þá skal jeg ekki svara því sjerstaklega, heldur láta mjer nægja að taka undir það, sem hv. þm. Barð. (HK) sagði um þetta atriði. Að öðru leyti hefi jeg ekki mörgu að svara úr ræðu hans. Hv. þm. gerði ráð fyrir, að matið á margnefndu Geysishúsi hefði verið sanngjarnt, og hefir hv. þm. Barð. nú lesið það upp, og get jeg einnig látið sitja við orð hans um það.

Þá bar hv. 2. þm, Árn. (JörB) það á fjvn., að hún hefði sýnt hlutdrægni í tillögum sínum, með þeim ummælum, að hefði slík tillaga sem hans komið úr Borgarfirði eða Skagafirði, mundi lítil fyrirstaða hafa verið á samþykt hennar. Jeg verð að vísa þessum ummælum á bug sem algerlega tilefnislausum og mjer liggur við að segja ósvífnum. Nefndin hefir gert sjer alt far um að forðast hlutdrægni í verkum sínum.

Þá mintist hv. 3. þm. Reykv. (JakM) á sjúkrastyrkinn, en þar kendi töluverðs misskilnings hjá háttv. þm., því að það hefir aldrei orðið hlje á að sækja um hann, en aftur hefir orðið hlje á að veita hann. Út af þessu vil jeg taka það fram, að því er þannig varið með þann styrk, að ef sjúklingur fer í sjúkrahús eftir læknisráði, er ríkissjóður skyldur að annast sjúklinginn, en annars ekki.

Þá mintist sami háttv. þm. á uppbótina til símamanna. En eins og jeg hafði áður tekið fram, hafði nefndin ekki ástæður til að rannsaka sem skyldi, svo að hún gæti greint sanngjarnlega á milli þeirra. Annars eru atkvæði nefndarmanna, óbundin um þetta.

Þá var háttv. þm. V.-Sk. (JK) með ýmsar hnútur í minn garð og sömuleiðis nefndarinnar. Og kom upp hjá honum, að hin 5 sjúkrarúm, sem hann talaði um áðan og áttu að vera í sjúkraskýlinu í Vík, væru nú orðin 9, en jafnframt skildist mjer á honum, að þau gætu aðeins orðið svona mörg, ef einangra þyrfti sjúklinga — og játar nú þm., að svo sje. Þetta hygg jeg, að sje alt á annan veg, því einangrun fækkar rúmunum. Einnig taldi hann það ekkert athugavert, þó að nú sæti læknir í læknishjeraðinu, sem væri með öllu óhæfur til þess að stunda sjúklinga í sjúkrahúsi. En jeg er ekki á þeirri skoðun, þar sem engin yfirlýsing frá lækni þessum liggur fyrir um það, að hann muni fara, ef skýli þetta verður reist, og þar sem líka landlæknir getur heldur ekkert um þetta. Er því full ástæða til að álykta, að hann myndi hvergi fara, þó að sjúkraskýlið kæmist upp. Þá sagði sami háttv. þm., að enginn læknir fengist í hjeraðið, ef sjúkraskýlið væri ekki bygt. Um það veit hann ekkert, því að mjer vitanlega hefir hjeraðinu aldrei verið „slegið upp“, en þegar það verður gert, er alveg víst, að einhver sækir um það, og verði það góður læknir, sem fær það, má alveg telja víst, að sjúkraskýlið verður reist mjög bráðlega.