16.04.1924
Efri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1649 í B-deild Alþingistíðinda. (1050)

60. mál, ríkisskuldabréf

Frsm. (Björn Kristjánsson):

Jeg hefi lítið um frv. þetta að segja annað en það, sem stendur í nál. á þskj. 390. Fyrsta breytingin fer fram á að leggja það meira á vald stjórnarinnar, hvernig ríkisskuldabrjefum skuli hagað, en gert er með lögunum frá 1923, því að þar er fastákveðin fjárhæð brjefanna og vextirnir sömuleiðis. En meiri hluti nefndarinnar lítur svo á, að hyggilegra sje, að ríkisstjórnin í hverju einstöku tilfelli kveði á um upphæð brjefanna og vexti af þeim, og er hann því þessu ákvæði frv. samþykkur. Á þetta benti jeg á síðasta þingi, og hefir reynslan sýnt, að þá hefði þurft að taka þær bendingar til greina.

Í 3. gr. laganna er ákveðið, að lánin skuli vera föst lán og til 25 ára og borgast í einu lagi. En meiri hluti nefndarinnar telur rjettara að gera þau að afborgunarlánum, því að það sje hagkvæmara og hollara fyrir ríkissjóðinn en að þurfa að borga þau á einu ári í lok lánstímabilsins, enda þá síður hætt við, að í gleymsku falli að borga þau, og telur því þessa breytingu til bóta.

Viðaukinn við 3. gr. laganna, sem hv. Nd. setti inn, á ekki við upphaf greinarinnar. Hefir nefndin því komið með breytingu í þessa átt, og er í nefndarálitinu skýrt frá, í hverju hún er fólgin. Því ekki meira um það hjer.

Af því að lög þessi eru stutt og smávægileg, þótti nefndinni rjettara að hafa þau í ein lagi í lögum landsins, og leggur því til, að breyting þessari verði skeytt inn í aðallögin.