17.03.1924
Neðri deild: 25. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1651 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

73. mál, yfirsetukvennaskóli

Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Frv. þessu fylgir svo nákvæm greinargerð, að það þarf ekki langrar framsögu. Frv. er flutt eftir ósk stjórnar ljósmæðrafjelags Íslands og tilmælum landlæknis. Aðalbreytingin, sem hjer er gerð á fyrirkomulagi skólans, er sú, að námstíminn vari 9 mánuði. Telur ljósmæðrafjelagið það nauðsynlegt vegna námsins, og hefir landlæknir fallist á það. Til þess að takmarka aðsókn að skólanum, eru inntökuskilyrðin gerð strangari, þannig, að öll ljósmæðraefni skuli eiga víst ljósmóðurumdæmi að náminu loknu. Við þetta ætti að vinnast, að nemendur yrðu færri, og mætti gera ráð fyrir 10 í stað 15, sem nú hefir verið að jafnaði. Það liggur í augum uppi, að kostnaður er ekki meiri við 10 nemendur í 9 mánuði heldur en 15 í 6 mánuði, er kemur til námsstyrksins. Hjer er því að ræða um að spara fje, sem áður hefir farið til ónýtis við það, að námsmeyjarnar hafa ekki stundað það starf, er þær voru styrktar til að búa sig undir, og verja því eingöngu til að styrkja þær námsmeyjar, sem vissa er um, að muni gegna þessum störfum að loknu námi. Jeg leyfi mjer því að óska, að hv. deild taki þessu máli vel og láti það ganga til 2. umr., og geri jeg það að tillögu minni, að því verði vísað til mentmn. að lokinni þessari umr.