25.04.1924
Efri deild: 54. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1657 í B-deild Alþingistíðinda. (1079)

73. mál, yfirsetukvennaskóli

Halldór Steinsson:

Aðalefni frv. þess, sem hjer liggur fyrir, er það að lengja námstíma yfirsetukvenna. Að því leyti miðar frv. í rjetta átt. Námstíminn hefir hingað til verið alt of stuttur, miðað við það, sem konunum hefir verið ætlað að læra. Hjá öðrum þjóðum er námstíminn miklu lengri, enda eru ljósmæður erlendis miklu betur að sjer en hjer á landi. Teldi jeg mjög æskilegt, að breyting þessi kæmist á.

Hjer liggja fyrir 2 brtt. við frv., frá mentmn. Er hin fyrri meinlaus og gagnslaus. Tillagan gengur í þá átt, að lengja skyldustarfstíma ljósmæðra í hjeraði, að afloknu prófi, um 2 ár, eða úr 3 árum upp í 5 ár. Hlýtur þetta að stafa af ókunnugleika hv. nefndar í þessu efni. Við læknar þekkjum það betur, að það er ekki til neins að setja svona ákvæði. Konan fer eftir vilja sínum í þessu efni, hvernig svo sem lög mæla fyrir um það. Við skulum aðeins hugsa okkur það dæmi, að ung og ógift ljósmóðir kyntist ungum bónda. Hún fer með honum úr hjeraðinu, ef svo býður við að horfa, þrátt fyrir öll lagafyrirmæli. Og mörg svipuð dæmi eru til. Ef konurnar ætla sjer að fara, þá halda þeim engin bönd. Því er ákvæðið gagnslaust, hvort sem það er 5 ár eða 3 ár.

Hin síðari brtt. hv. nefndar fer í þá átt, að einskorða tölu nemenda við töluna 12. Tel jeg það til spillis. Reynslan hefir sýnt, að þörfin á ljósmæðrum er misjöfn og fer eftir ýmsum atvikum. Á ófriðarárunum var ekla á ljósmæðrum. Nemendafjöldinn hefir stundum verið 15–20, en aftur á móti stundum, t. d. í vetur, ekki nema 6–8. Verður að aka seglum eftir vindi í þessu efni og miða nemendafjöldann við þörfina í hvert sinn. Álít jeg því till. hv. nefndar til spillis. Fyrir utan þessa aðalástæðu, þá tel jeg það mjög illa farið, vegna þess að frv. er til bóta, að það falli; en á því er hætta, ef brtt. hv. nefndar verða samþyktar og frv. fer að hrekjast á milli deilda, en nú orðið áliðið þingið. Vil jeg því beina þeirri ósk minni til hv. nefndar, að hún taki brtt. sínar aftur, en vilji hún það ekki, þá vona jeg, að hv. deild felli þær.