14.04.1924
Neðri deild: 50. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1661 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

134. mál, sveitarstjórnarlög

Magnús Torfason:

Það er vegna brtt., er jeg hefi leyft mjer að gera við þetta frv., að jeg stend upp. Eins og þetta frv. er fram borið hjer í þessari háttv. deild hefir það ekkert inni að halda annað en hreina og skæra útsvarshreppapólitík. Fyrir árið 1919 var álagningarrjettur sveitarstjórna miklu víðtækari en síðar varð, eftir lögum 1919 og 1922. Áður en lögin frá 1919 voru sett, urðu menn úr Borgarfjarðar-, Mýra-, Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu og Reykjavík að borga útsvar í Sandgerðisvík, ef þeir gerðu þar út. En eftir lögunum 1919 var svo ákveðið, að í þessu efni skyldi eitt ganga yfir allan Faxaflóa. Jeg var einmitt annar forgöngumaður þessarar breytingar í hv. Ed. En hjer er verið að setja inn sjerstakt ákvæði, sem kemur algerlega í bága við það, sem þá var gert. Þá urðu menn að búa við sama flóa eða eiga heima í sama sýslufjelagi til þess að sleppa við útsvar þar, sem þeir gerðu út. Nú er þessu eftir frv. ekki lengur til að dreifa. Faxaflói hefir altaf verið talinn frá Garðskaga til Öndverðuness eða Lónsdranga, og þetta staðfestir hinn nýfallni hæstarjettardómur, sem minst hefir verið á í þessu sambandi. En eins og menn vita, er dómstjóri hæstarjettar þessu sjerstaklega kunnugur sem fyrrum sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Jeg hygg líka, að svo standi í gömlum bókum, þar sem getur takmarka Faxaflóa, að þá sje hann talinn frá Öndverðunesi til Garðskaga. Svæði þetta kallað „fyrir Reykjanesi.“ Hjer er því hreint og beint verið að breyta landafræðinni. En ef breyta á þeirri frumreglu, sem gilt hefir í þessu efni um hríð, þá get jeg ekki sjeð, hvers vegna menn frá Fúluvík eiga fremur að vera skattfrjálsir í Sandgerði heldur en menn af Eyrarbakka og Stokkseyri. Það er vitanlegt, að menn þar að austan gera stundum út í Sandgerði, og mundu hafa gert það nú í vetur t. d., ef afli hefði ekki verið jafngóður eystra og raun varð á. Jeg álít því, að ef á að breyta lögunum í þessu atriði, þá eigi austanmenn eins mikinn rjett þarna og meiri en menn úr Mýrasýslu og af Snæfellsnesi. Það er skemra af Eyrarbakka í Sandgerði heldur en frá Fúluvík. Viðskifti manna að vestan við þennan stað eru mjög lítil. En aftur eru feikilega mikil viðskifti við austursýslurnar. Skifst er á vinnukrafti svo hundruðum manna skiftir, og það hefir aldrei verið siður að leggja á þann vinnukraft útsvar. Jeg veit, að sagt verður, að þetta komi ekki málinu við, því hjer sje aðeins lagt á vjelbátana. En það er ekki rjett, því skatturinn er tekinn af óskiftum afla. Og engin ástæða er til þess að íþyngja vjelbátaútveginum, því hann á afarerfitt uppdráttar, eins og öllum er kunnugt.

Annars verð jeg að segja það um frv. sjálft, að mjer líkar það illa eins og það er fram borið. Og eftir því, sem jeg hefi næst komist, þá er frv. líka öðruvísi fram borið en til var ætlast. Í greinargerðinni segir, að lög þessi eigi að verða til þess að rýmka landhelgina síðar meir. Jeg er því vitanlega sammála. En hafi það verið tilætlunin, þá er hjer algerlega skakt að farið, því þá er beint ákveðið, að Flóinn skuli að því er landhelgi snertir ekki ná lengra en til Garðskaga. Það fer því beint í bág við þann tilgang að samþykkja frv. í því formi, sem það liggur nú fyrir í.

Ef hv. flm. (PO) vildi því fá umr. frestað, og koma síðan með brtt. þess efnis að nema burt úr frv. orðin „í þessu efni“, þá mun jeg taka brtt. mína aftur. Þá er hjer um stórt mál að ræða, sem jeg vil alls ekki spilla fyrir. En ef hjer er um tóma útsvarshreppapólitík að ræða og skaða fyrir landhelgismálið, þá endurtek jeg það, sem jeg hefi áður sagt, að Eyrarbakki og Stokkseyri eiga hjer eins mikinn rjett á skattfrelsi og Fúlavík.