24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (109)

1. mál, fjárlög 1925

Hákon Kristófersson:

Jeg get þakkað hæstv. fjrh. (JÞ) fyrir það, að hann sannaði ummæli mín um landssjóðssmiðjuna.

Hv. 2. þm. Árn. (JörB) sagðist ekkert geta að því gert, þó að jeg vissi ekkert um verð á byggingarefni á Eyrarbakka og að það hefði verið ódýrara en vestur á Barðaströnd. Þetta er bara út í loftið og sannar ekkert, að það verð, sem húsið hefir verið metið eftir, hafi ekki verið of lágt. Annars er jeg óhræddur að heyra allar þær upplýsingar, sem háttv. þm. getur gefið í þessu máli, því jeg veit, að jafnsannleikselskur maður og þessi háttv. þm. er kemur ekki með neitt það, sem mjer er niðrun í, og því skal jeg lofa honum að þrátta ekki meira um þetta, því að öll ummæli mín í þessu máli standa óhrakin ennþá, enda ekki gott að hrekja sannleikann.