13.03.1924
Efri deild: 18. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1673 í B-deild Alþingistíðinda. (1110)

59. mál, friðun rjúpna

Frsm (Eggert Pálsson):

Þetta mál, sem allir hv. deildarmenn kannast eflaust vel við, er ekkert stórpólitískt mál. Má því vænta, að út úr því verði enginn hvellur ger, enda ætti slíkt síst við, þar sem um jafnmeinlausan fugl er að ræða sem rjúpan er.

En þó nú að mál þetta sje ekki stórmál, er það samt þarft, því að yrði rjúpan ekki friðuð nema til næsta hausts, mætti búast við, að hún yrði innan lítils tíma eyðilögð.

Það var fyrst 1913, að farið var að friða rjúpuna. Var hún þá friðuð samkvæmt hinum almennu fuglafriðunarlögum á tímabilinu frá 1. febr. til 30. september, og svo alt árið 1915, en úr því 7. hvert ár. En það sýndi sig fljótlega, að þetta var ekki nægilegt, því að veturinn 1917–18 fjell hún svo mjög, að um vorið lá hún dauð svo hundruðum skifti úti um hagana. Leiddi þetta svo til þess, að í nóv. 1920 gaf stjórnin út bráðabirgðalög um friðun rjúpna, þar sem ákveðið var, að þær skyldu alfriðaðar til 1 jan. 1922, en það ár, 1922, voru þær samkvæmt hinum almennu fuglafriðunarlögum friðaðar. En í meðferð þingsins 1921 var þessum lögum breytt svo, að rjúpur voru alfriðaðar til 1. október 1924. En nú hefir það sýnt sig, að þessi friðunartími er ekki nægilegur, því að ennþá mun mjög lítið um rjúpur í flestum landsfjórðungum, þó að raddirnar um það sjeu vitanlega töluvert misjafnar. En í landbn., sem mál þetta hefir haft til meðferðar, eiga sæti þrír menn, sitt úr hverjum landsfjórðungi, og ber þeim öllum saman um, að ennþá sje fremur lítið af rjúpum, og fallast því allir á að framlengja friðunartímann. En þótt nefndarmenn væru allir á einu máli um það, að friðunartímann þyrfti að framlengja, þá gátu þeir hinsvegar ekki fallist á að lengja hann um 3 ár, eins og flutningsmaður fer fram á, en aftur á móti leggur nefndin til, að hann verði lengdur um 2 ár, eða til 1. jan. 1926. En úr því að farið var að hreyfa við hinum gildandi lögum á annað borð, þá taldi nefndin rjett að láta rjúpuna njóta þess að öðru leyti. Þess vegna leggur hún til, að friðunarár rjúpna verði í framtíðinni 5. hvert ár, í stað 7. hvert ár, sem nú er í lögunum.

Býst jeg við, að flutningsmaður gangi inn á báðar þessar breytingar nefndarinnar og hafi ekkert við þær að athuga.

Breytingartillögu þá, sem fram er komin um að lengja friðunartímann aðeins um eitt ár, getur nefndin ekki fallist á. Telur hún að það sje helst til stuttur tími, því rjúpan á sannarlega við marga óvini að etja, og þarf því að fá að fjölga í næði ennþá um nokkurt skeið. Óvinir rjúpunnar eru ekki aðeins hin óblíða náttúra, og þar af leiðandi hörð lífskjör, heldur og fálkar, refir, ernir, og síðast en ekki síst hinir drápgjörnu menn. Og þar sem dráptækin eru nú líka orðin miklu fullkomnari en þau voru áður, þá er lífi rjúpunnar miklu meiri hætta búin en áður var af mannanna hálfu. Nú eru eingöngu notaðar byssur, í staðinn fyrir snörurnar, sem áður tíðkuðust.

Vil jeg svo fyrir hönd nefndarinnar leggja til, að brtt. hennar á þskj. 94 verði samþyktar, en brtt. á þskj. 106 verði feld, því að samþykkja hana nú væri sennilega ekki til annars en að taka yrði málið aftur upp á næsta þingi.