18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1685 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

59. mál, friðun rjúpna

Sveinn Ólafsson:

Jeg vil taka í strenginn með hv. þm. Borgf. (PO) um það, að ekki virðist jafnmikil nauðsyn á friðun rjúpna framvegis, sem mönnum þótti 1921, þegar friðunarlögin voru samþykt. Jeg hygg þá skoðun ekki á rökum bygða, sem þá var almennust, að rjúpurnar hefðu alveg fallið og þorrið vegna harðinda. Jeg hygg, að þær hafi þá um stundarsakir flúið til Grænlands eða eitthvað annað, en það hafi ekki verið orsök fæðarinnar, að rjúpan hafi stráfallið, eins og þá var víst talið af mörgum. Frá því er jeg man fyrst eftir, hefir aldrei verið meira um rjúpur í nágrenni við bústað minn en nú í vetur, og kemur ekki til mála, að það stafi frá eðlilegri tímgun, ef þær hefðu stráfallið 1921, heldur hljóta þær að hafa flutt sig; og einmitt sömu söguna hefi jeg heyrt marga segja úr öðrum sveitum eystra. Jeg tel rjúpnaveiðar svo mikilsverð hlunnindi, að jeg álít sjálfsagt að leyfa þær strax í haust komanda, jafnvel þótt þær sjeu nú ekki svo útbreiddar sem þá, er mest hefir verið. Arður af rjúpnaveiði mundi gefa mönnum tækifæri til að auka að nokkrum mun afurðamagn landsins þegar næsta vetur, og tel jeg það mjög mikilsvert, einmitt þegar allra ráða þarf að leita til aukinnar framleiðslu. Jeg verð því að ganga á móti frv. og óska, að friðunin nái ekki lengra en til næsta hausts.