18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1687 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

59. mál, friðun rjúpna

Jón Sigurðsson:

Jeg skal ekki blanda mjer í deiluna um rjúpnaát Reykvíkinga, heldur víkja nokkrum orðum að því, sem fyrir liggur, hvort þörf sje á að friða rjúpuna lengur eða ekki. Hv. þm. Borgf. (PO) og hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) telja þess ekki þörf, þar sem rjúpnamergðin sje nú aftur orðin svo mikil. Jeg verð að segja þvert á móti þessu, að þar, sem jeg þekki til á Norðurlandi, er stórmikill munur á rjúpnafjöldanum frá því, sem áður var. Jeg er því sannfærður um, að þörf sje á að friða rjúpuna enn um hríð, en aftur er vafasamt, hvort nauðsynlegt sje að hafa friðunartímann svo langan, sem í frv. er ráð fyrir gert. Hygg jeg, að vel megi nægja að láta hann ná til 1. okt. 1925. Væri ástæða fyrir hv. landbn. að taka þetta til athugunar og afla sjer upplýsinga frá ýmsum landshlutum um rjúpnafjölgunina. Þó að hún hafi orðið mikil í einu eða tveim hjeruðum, þá er ekki víst, að svo sje annarsstaðar. Má vera að hin langvinna norðan- og norðaustanátt hafi orðið til þess, að rjúpan hafi flögrað undan, og sje því meira um hana á Suður- og Suð-austurlandi en annarsstaðar.