18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1689 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

59. mál, friðun rjúpna

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg kann því ekki, að Reykvíkingar skuli standa hjer upp hver af öðrum og setjast að hv. þm. Borgf. (PO) fyrir það eitt að segja sannleikann. Það hefir ekki eingöngu borist út um sveitirnar, heldur er það fullyrt um allan bæinn, að í áðurnefndri veislu hafi íslenskar rjúpur verið á borðum. Þessi þykkja hv. þm. virðist sanna málsháttinn, að sá er eldurinn sárastur, er á sjálfum brennur. Rjettarástandið í þessum bæ er nú svo, að þvílíkt og annað eins er látið órannsakað. Jeg hefi að vísu ekki skjallegar sannanir um þessar rjúpur, en sterkar líkur eru fyrir því, að þær hafi verið íslenskar. (Forsrh. SE: Það eru einmitt sannanirnar, sem vantar). Hæstv. forsrh. hefir einungis talað við forstöðumanninn, og þarf það ekki að sanna neitt. þó að hann hafi ekki játað þetta. (Forsrh. SE: Hann hefði ekki framið neitt lagabrot, þó að hann hefði veitt íslenskar rjúpur, og hefði því ekki haft ástæðu til þess að dylja hið rjetta). Jeg vil ekki láta setjast að hv. þm. Borgf., þó að hann hafi sagt satt, heldur vil jeg standa við hlið hans í þessu máli.

Um efni frv. skal jeg geta þess, að jeg mun standa nærri þeim mönnum, sem vilja lengja friðunartímann. Jeg hygg rjúpnafjölgunina æðimisjafna á ýmsum stöðum. Þó að spurst hafi, að talsvert sje um rjúpur á Suð-austurlandi, þá get jeg sagt, að jeg ferðaðist allmikið um Norð-vesturland síðastliðið sumar, og voru þær rjúpur teljandi, sem jeg sá þá á 1½ mánaðar ferðalagi. Á þeim slóðum er því ennþá mikil þörf friðunar.