18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (1131)

59. mál, friðun rjúpna

Ingólfur Bjarnarson:

Jeg vil leyfa mjer að skjóta því til þeirrar nefndar, sem á að fjalla um þetta mál, að nauðsynlegt er að samræma ákvæði laganna um friðunartímann. Eftir frv. á að alfriða rjúpur 5. hvert ár, talið frá 1. okt. til 1. okt. árið eftir, en hinn árlegi friðunartími rjúpna endar 20. sept. samkv. gildandi lögum. Þetta er mjög óheppilegt. Það ár, sem rjúpur eru alfriðaðar, má þá skjóta þær frá 20. sept. til 1. okt., og er þá tiltölulega auðvelt að halda áfram að drepa þær fram á vetur og láta í veðri vaka, að þær hafi verið skotnar á þessum 10 dögum. Jeg vil því benda hv. nefnd á, hvort ekki sje rjett að breyta frv. þannig, að rjúpur sjeu alfriðaðar 5. hvert ár frá 20. sept. til 20. sept. árið eftir.

Þar sem jeg stóð annars upp, skal jeg fara að dæmi annara hv. þm. og vitna líka um þekkingu mína á rjúpnafjölguninni. — Vil jeg taka undir með þeim, sem halda því fram, að rjúpum hafi fjölgað mjög mikið. Í mínu hjeraði er það svo að minsta kosti, að þar hefir ekki verið jafnmikið um rjúpur sem síðastl. haust síðustu 10 árin. Það er auðvitað ekki fullgild sönnun um rjúpnafjölgunina alment, því það er rjett, sem hv. 2. þm. Skagf. tók fram, að þetta getur verið mjög misjafnt í ýmsum hjeruðum. En þar sem frv. hefir verið breytt þannig, að rjúpur skuli alfriða 5. hvert ár, en ekki 7. hvert ár, tel jeg hættulaust, þó að leyft væri nú að fara að skjóta rjúpuna aftur, eins og gildandi lög ætlast til.