18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1691 í B-deild Alþingistíðinda. (1132)

59. mál, friðun rjúpna

Jakob Möller:

Jeg játa, að það sje drengilegt af hv. þm. Str. (TrÞ) að vilja ekki láta „setjast að“ háttv. þm. Borgf. (PO), en ástæður hans voru ljelegar. Því þó að hann telji þetta sannleika, vantar allar sannanir fyrir því. Hv. þm. Borgf. (PO) lýsti yfir, að hann vissi ekki annað um þetta en hann hefði heyrt fleygt, og ætlaðist hann ekki til, að það væri tekið öðruvísi en hann talaði. En hv. þm. Str. staðhæfir, að þetta sje alt satt og rjett, og má vera, að sannanirnar komi frá honum. Hann hefir ef til vill haft rjúpur daglega á borðum, eða að minsta kosti sem hátíðamat. Jeg hefi ekkert heyrt um rjúpnaát hjer í bænum, og verði það ekki sannað, tel jeg það sem hverja aðra Gróusögu. Hv. þm. Str. staðfestir það, að hann hafi sjeð örfáar rjúpur á ferðalagi sínu og að rjúpnafriðunarlögin hafi ekki haft þau áhrif, að rjúpum hafi fjölgað að mun, en þá liggur í hlutarins eðli, að ekki getur það verið gróðavænleg atvinna að skjóta þessar örfáu rjúpur og að rjúpnaát getur ekki verið mjög alment. En ef hv. þm. getur fært einhverjar sönnur á sitt mál, er auðvitað sjálfsagt, að það verði athugað betur.