12.04.1924
Neðri deild: 49. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1696 í B-deild Alþingistíðinda. (1140)

59. mál, friðun rjúpna

Frsm. meiri hl. (Björn Líndal):

Eins og sjá má á hefndarálitunum, gat nefndin ekki orðið sammála um þetta mál, og eins og nál. 263 ber með sjer, er meiri hl. nefndarinnar ekki samþykkur því, að rjúpur skuli friðaðar einhver ákveðin ár, með vissu millibili, og eru fyrir því ýmsar ástæður. Þetta ákvæði í lögunum, að rjúpur skuli alfriðaðar einhver viss ár, sýnist ekki hafa við mikið að styðjast. Komi harður vetur þegar rjúpan er alfriðuð, getur hún kolfallið, og kemur þá engum að gagni friðunin. Þessi fyrirfram ákveðna friðun kemur því aðeins að tilætluðum notum, að veðrátta sje hagstæð rjúpunni friðunarárið. Aftur á móti álítur meiri hl. nefndarinnar rjett, að hinn árlegi veiðitími sje styttur, og vill þar taka bæði framan og aftan af veiðitímanum eins og hann nú er ákveðinn. Þegar rjúpur eru skotnar í september og fyrri hluta októbermánaðar, skemmast þær oft fljótlega, einkum ef heitt er í veðri; koma þá skemdar á markaðinn og spilla verðinu. Þá er og annatími allmikill víðast hvar, og því ekki ástæða til þess að láta rjúpnaveiðar ganga fyrir öðrum nauðsynlegri störfum. Enda eru ungarnir naumast svo þroskaðir fyr en um miðjan októbermánuð, að rjett sje að skjóta þá fyr. Þetta vegur allmikið í augum okkar meirihlutamanna, og því viljum við ekki láta veiðitímann byrja fyr en 15. okt. Þá viljum við og nema aftan af veiðitímanum og láta hann vera úti með nýári. Þá er oft orðið hart í ári og rjúpurnar farnar að megrast, og því minna varið í þær. Sverfur þá oft svo að þeim, að þær hópa sig heima við bæina, og er þá lítil mannúð í því að ráðast á þær horaðar og hungraðar. Sá tími, sem við viljum ákveða til veiðanna, virðist okkur nægilega langur. Það er 2% mánuður, og þá er einmitt lítið um önnur störf oftast nær, og hafa menn því góðan tíma til að gefa sig við veiðunum. Þess vegna legg jeg til fyrir hönd meiri hl. nefndarinnar, að brtt. okkar á þskj. 263 verði samþyktar. Við viljum halda lögunum frá 1913, með þeim breytingum, sem við nú leggjum til, en fella alveg úr gildi lögin frá 1921 að því er rjúpuna snertir. Aftur viljum við taka upp hegningarákvæðin úr lögunum frá 1921 og ákveða sömu sektir við brotum á þessum lögum.