12.04.1924
Neðri deild: 49. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (1141)

59. mál, friðun rjúpna

Frsm. minni hl. (Pjetur Þórðarson):

Eins og sjest á þskj. 263 og 346, hefir nefndin ekki getað orðið á eitt sátt um þetta mál, en þó verður ekki sagt, að ágreiningurinn frá hálfu minni hl. sje í raun og veru mikill, þó að hann hafi ekki getað orðið samferða meiri hl. Að við hv. þm. Barð. höfum ekki getað fallist á brtt. meiri hl. nefndarinnar, kemur til af því, að á öllu Vesturlandi hefir þess alment verið óskað, að friðunartími rjúpnanna yrði framlengdur, þegar hann næst yrði útrunninn. Af þessum einföldu ástæðum. höfum við fallist á að fara fremur þá leið, sem frv. leggur til, því við álítum rjett að taka þessar almennu óskir til greina. Þó hefi jeg nú á síðustu stundu orðið þess var, að þessar óskir hnigi nokkuð í aðra átt í mínu kjördæmi, svo að jeg get ekki sagt, að mjer standi það á miklu, hvort frv. verður samþykt óbreytt eða ekki, þó að jeg hallist fremur að þeirri stefnu, sem kemur fram í frv. óbreyttu. Jeg tel málið ekki mikilsvert og hefi svo ekki meira að segja og get látið mjer í ljettu rúmi liggja, hvað ofan á verður af þessu tvennu, sem hjer er um að ræða.