12.04.1924
Neðri deild: 49. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1703 í B-deild Alþingistíðinda. (1145)

59. mál, friðun rjúpna

Frsm. meiri hl. (Björn Líndal):

Háttv. þm. Borgf. hefir að vísu tekið flest það fram, er jeg vildi sagt hafa, en út af orðum háttv. 1. þm. S.-M. um till. meiri hl. nefndarinnar, þá held jeg, að landbn. ráði harla litlu um líf eða dauða rjúpunnar, á móts við önnur öfl, sem þar eru að verki. Það er aldrei hægt að segja fyrirfram, hvenær harðindi muni koma yfir þetta land, en svo getur vel hugsast, eins og hv. þm. Borgf. tók fram, að einmitt á hörðum vetri geti verið of mikið að rjúpum, og þá falla þær, meðfram eða kannske mestmegnis af þeirri ástæðu. En kæmi það t. d. fyrir, að rjúpur fjellu til muna á hörðum vetri, getur stjórnin vel gefið út bráðabirgðalög til þess að friða þær. Þá hygg jeg, að háttv. 1. þm. S.-M. hafi misskilið mig, er hann talaði um þann tíma, er veiðarnar skyldu byrja. Jeg hefi ekki gert svo mjög mikið úr því, að ungarnir væru ekki nógu þroskaðir fyr en í byrjun októbermánaðar, en hitt er viðurkent, að þegar rjúpur eru skotnar snemma á hausti langt fram til dala og komast ekki fyr en löngu síðar til sölustaðarins, eru þær oft stórskemdar, þegar þær koma á erlendan markað. Það er því sjálfsagt að taka tillit til þessa, þegar ákveða skal, hvenær megi byrja að skjóta rjúpur. Jeg hefi tekið þetta fram áður, að það getur haft óheppileg áhrif á markaðinn erlendis, ef þangað flytjast ekki góðar rjúpur, eða alls ekki neinar sum árin. Þegar fólk, sem vant hefir verið að kaupa íslenskar rjúpur, fær þær ekki, eða aðeins skemdar rjúpur, kaupir það eitthvað annað, t. d. norskar rjúpur, í staðinn, og þegar íslenskar rjúpur koma aftur á markaðinn, er fólkið annað tveggja búið að gleyma þeim eða vill ekki hafa þær lengur, og þarf þá talsverðan tíma til þess að venja fólk aftur á að kaupa íslenskar rjúpur og vekja traust þess á þessari vörutegund. Þetta mælir því alt á móti því, að rjúpur sjeu friðaðar 5. eða 7. hvert ár, en til þess að tryggja þennan veiðistofn sem tekjugrein fyrir þá, er þessa atvinnu stunda, mætti gefa stjórninni heimild til að takmarka eða banna alveg veiðarnar eitt ár í senn, ef þess þætti þörf, ef menn vilja ekki láta grípa til þess að gefa út bráðabirgðalög um þetta í hvert sinn og þess þyrfti við.